Aukin virkni við Upptyppinga

Á undanförnum vikum hefur skjálftavirkni farið vaxandi við Upptyppinga, norðan Vatnajökuls. Vísindamenn fylgjast spenntir með, því þarna eru að gerast atburðir sem ekki hafa sést áður. Athygli vekur, að skjálftarnir, sem mælst hafa að undanförnu, eru mun grynnra í jarðskorpunni en þeir skjálftar sem mældust á sömu slóðum í fyrra.

Mikil skjálftahrina var í nágrenni Upptyppinga í fyrra. Mældust mörg hundruð skjálftar sumar daga. Að sögn Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hætti skjálftavirknin á svæðinu í maí í vor. Lá allt í láginni þangað til kom fram í ágúst. Þá fór að mælast einn og einn smáskjálfti á þessum slóðum og síðustu vikurnar hafa verið vaxandi smáskjálftar á mjög afmörkuðu svæði fyrir norðan Upptyppinga.

„Erfitt er að segja til um hvað er þarna á ferðinni því við þekkjum ekki svona atburðarás frá fyrri tíð,“ segir Páll.

Næsti kafli er hafinn

Atburðarásin sem byrjaði í fyrra stóð í rúmlega ár og tengdist kvikuinnskoti. Kvika kom upp í neðri hluta jarðskorpunnar, sennilega neðan frá, og settist þar að. Samfara því varð heimikil landlyfting á stóru svæði við Upptyppinga og Álftadalsdyngju.

Nú virðist næsti kafli í þessari atburðarás hafinn, að sögn Páls, og tengist hann þeim skjálftum sem nú eru á svæðinu. Skjálftarnir núna eru mun grynnra en í umbrotunum í fyrra. Þeir eru að mælast á 5-7 kílómetra dýpi en skjálftarnir í fyrra mældust á 15-20 kílómetra dýpi. Að sögn Páls er hugsanlegt að kvikan sé að brjóta sér leið ofar í jarðskorpuna.

En á hitt beri að líta, að engin mælanleg landlyfting hefur átt sér stað samfara skjálftavirkninni núna, sem bendir til þess að ekki sé um að ræða mikla tilfærslu á kviku undir yfirborðinu. Af þeim sökum sé ekki gott að meta, hvað þessir grunnu skjálftar tákna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert