Efnahagsnefnd fundi á morgun vegna IMF-láns

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is

Þingflokkur Vinstri grænna ákvað á fundi sínum síðdegis að óska eftir því að haldinn verði fundur á morgun í efnahags- og skattnefnd þingsins, þar sem farið verði yfir samningsforsendur Íslands vegna láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF).  Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks VG, hyggst rita formanni nefndarinnar bréf og fara fram á fund á morgun um málið.

 Ögmundur segir að á fundi þingflokksins hafi komið fram mjög eindregin gagnrýni á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. M.a. hafi verið gagnrýnt að leitað skyldi til IMF án þess að Íslendingar hafi skýrt samningsmarkmið sín.

„Um þau hefur ekki farið fram nein lýðræðisleg umræða, Alþingi hefur ekki verið kallað saman til þess að ræða óskir okkar í þeim efnum og hvaða skilmála við viljum setja,“ segir Ögmundur. Þar sem málið hafi verið kynnt í nefndum hafi ekki verið óskað eftir viðhorfum stjórnarandstöðunnar, heldur aðeins farið fram yfirborðsleg kynning. Málið sé allt hulið leyndarhjúp.

Ögmundur segir VG helst hafa viljað að Alþingi yrði kallað saman í kvöld eða á morgun þar sem fram færi opin umræða um þessi mál.  Að öðrum kosti verði málið rætt í efnahags- og skattanefnd.  „Við viljum einfaldlega fá að vita hvað það er sem ríkisstjórnin er að gera. Hún er með mjög vafasömum og ólýðræðislegum hætti að senda erindi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins án þess að umræða fari fram um það í þinginu. Þetta eru að mínu mati forkastanleg vinnubrögð,“ segir Ögmundur.

Þjóðin eigi rétt á að vita á hvaða  forsendum er verið að semja fyrir hennar hönd. „Það er vitað að IMF setur okkur skilmála, hverjir eru þeir skilmálar?“ spyr Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka