Mosfellsbær tekur við rekstri íþróttamiðstöðvar

Mosfellsbær.
Mosfellsbær. Árvakur/RAX

Mosfellsbær hefur tekið við rekstri Íþróttamiðstöðvarinnar Lágafells við Lækjarhlíð í Mosfellsbæ sem áður var rekin á vegum fyrirtækis í eigu Nýsis hf.  Öllum starfsmönnum íþróttamiðstöðvarinnar verður boðið starf hjá Mosfellsbæ frá og með 1. nóvember. Alls starfa 13 manns í fullu starfi við íþróttamiðstöðina og um tíu til viðbótar í hlutastarfi.

Fasteignafélagið Lækjarhlíð ehf., sem er í eigu Nýsis hf. og Mosfellsbæjar, reisti íþróttamiðstöðina árið 2006 og hefur Nýsir Services rekið hana upp frá því. Í starfseminni felst meðal annars þjónusta við nemendur í Lágafellsskóla, svo sem sundkennsla og íþróttakennsla og er þar jafnframt almenningssundlaug fyrir íbúa Mosfellsbæjar, samkvæmt samningi Nýsir Sevices og Mosfellsbæjar.

Vegna mikilla erfiðleika í efnahagslífinu og rekstrarörðugleika fyrirtækisins óskaði Nýsir Services nýverið eftir því við Mosfellsbæ að það yrði leyst undan samningum. Mosfellsbær varð við þeirri ósk og tekur við rekstri íþróttamiðstöðvarinnar svo tryggja megi áframhaldandi þjónustu við íbúa í Mosfellsbæ.

Í íþróttamiðstöðinni er meðal annars rekin sundlaug, íþróttahús og líkamsræktarstöð á vegum World Class. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert