Svikahringingar í gsm-síma

mbl.is/Jim Smart

Frá því um miðja síðustu viku hefur á annað þúsund viðskiptavina Símans og Vodafone fengið upphringingu úr númeri sem hefst á +882. Að líkindum er um svikamyllu að ræða og markmiðið að fá fólk til að hringja til baka og draga þannig fé af símanúmerum viðkomandi.

Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir um 1.000 viðskiptavini Símans hafa fengið hringingar úr númerum sem þessum undanfarna daga.

„Þetta er bara í gsm-síma. Við sjáum að það hefur verið hringt og skellt á,“ segir Margrét. Númerið +882 stendur fyrir evrópska gervihnattakerfið (EMSAT). Hver hringing varir stutt en Margrét segir Símann telja að um svikamyllu sé að ræða. Margrét segir að Síminn hafi lokað á þessi númer hjá viðskiptavinum sínum. Þetta hafi verið gert 2004 þegar svipað mál kom upp. Það þýðir að viðskiptavinir geta ekki hringt til baka og verða því ekki fyrir kostnaði vegna svikanna. „Hins vegar getum við ekki lokað fyrir þetta sé hringt í fólk sem statt er í útlöndum,“ segir Margrét.

Hún segir Símann hvetja fólk til þess að hringja ekki til baka í erlend númer sem það þekkir ekki. Í sama streng tekur Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone. „Við höfum lokað fyrir númer sem við sjáum að eru líkleg til þess að tengjast þessu,“ segir hann. Hann hvetur fólk til að láta lögreglu vita fái það upphringingu af þessu tagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert