Fyrrum ritstjórar dæmdir fyrir áfengisauglýsingar

Hæstiréttur þyngdi í dag refsingu yfir fyrrverandi ritstjórum DV fyrir að hafa birt áfengisauglýsingar í blaðinu. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var þeim þeim gert að greiða 200 þúsund hvor í sekt til ríkissjóðs en í Hæstarétti var sú fjárhæð tvöfölduð og þeim gert að greiða alls átta hundruð þúsund króna sekt fyrir brot sitt.

Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason voru sakfelldir fyrir að hafa sem ritstjórar DV á árinu 2005 birt áfengisauglýsingu í blaðinu í desember 2005 og með því brotið gegn áfengislögum.

Ritstjórarnir byggðu meðal annars mál sitt á því að deildaskipting væri á blaðinu og að auglýsingadeildin væri aðskilin frá ritstjórn. Í 15. gr. laga nr. 57/1956 segir um ábyrgð á efni rita, að útgefandi rits eða ritstjóri beri refsi- og fébótaábyrgð á efni rits ef höfundur hefur ekki nafngreint sig. Í málinu lá fyrir að auglýsandinn hefði ekki verið nafngreindur í auglýsingunni og því reyndi á ábyrgð þeirra sem ristjóra samkvæmt ofangreindu ákvæði. Í lögbundinni ábyrgð  sem ritsjóra fólst að þeim bar að yfirfara það efni blaðsins sem þeir voru ábyrgir fyrir og bar að gæta þess að efni sem birt hefði verið í blaðinu væri ekki andsætt lögum. Talið var að þar sem þeir létu með öllu undir höfuð leggjast að sinna lögbundum skyldum sínum hefðu þeir fellt á sig saknæma refsiábyrgð á því broti sem þeim var gefið að sök. Jónas og Mikael voru því hvor um sig dæmdir til greiðslu 400.000 króna sektar.

Jón Steinar Gunnlaugsson skilaði sératkvæði í málinu og vísaði til dóms yfir fyrrum  ritstjóra Blaðsins nýverið sem var dæmdur til þess að greiða eina milljón króna í sekt fyrir birtingu áfengisauglýsinga. Í því máli skilaði Jón Steinar einnig sér atkvæði og taldi að sýkna ætti ritstjórann þar sem sú undantekningarregla að erlend rit eru undanþegin banni við áfengisauglýsingum bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Segir í sératkvæði Jóns Steinars nú að það liggi  fyrir að meirihluti Hæstaréttar í ofangreindu máli var annarrar skoðunar en hann um gildi refsiheimildarinnar. „Taldi meirihlutinn tilvitnuð lagaákvæði standast stjórnarskrá og beitti þeim sem heimild til ákvörðunar refsingar í málinu. Kemur þá til athugunar hvort sú niðurstaða sé bindandi fyrir Hæstarétt, og eftir atvikum einstaka dómara við réttinn, í síðari málum þar sem reynir á hliðstætt sakarefni og þá á grundvelli fordæmisreglu sem felist í dóminum.

Það er skoðun mín að fordæmi sé ekki sjálfstæð réttarheimild, sem dómstólum sé skylt að beita án tillits til þeirrar réttarheimildar sem leiddi til niðurstöðunnar. Ég tel að fordæmi sé frekar afleidd heimild sem sé aðeins jafn bindandi og sú réttarheimild sem fordæmið byggist á. Dómstólar hafa ekki að réttum stjórnlögum vald til að setja lagareglur. Þeirra hlutverk er að finna þær réttarheimildir sem í gildi voru á þeim tíma sem málsatvik urðu og leiða af þeim reglur sem beitt er við dómsúrlausn, sbr. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Á það jafnt við um sett lög sem aðrar réttarheimildir. Þó að Hæstiréttur komist þannig að ákveðinni niðurstöðu um beitingu réttarheimildar í tilteknu máli hefur það að mínum dómi ekki þá þýðingu að til hafi orðið ný lagaregla sem upp frá því sé skylt að beita í sambærilegum málum á sama hátt og skylt er að beita lögum sem stafa frá löggjafanum. Þrátt fyrir þetta kann að vera nauðsynlegt vegna sjónarmiða um jafnræði manna og samræmi í dómsúrlausnum að taka mið af fyrri úrlausnum Hæstaréttar þegar leyst er úr máli. Verður dómari að vega þessi sjónarmið saman þegar á reynir.

Í þessu máli er um að ræða sakarefni sem varðar að mínum dómi brot gegn stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi og jafnræði borgara, sbr. 65. og 73. gr. stjórnarskrár. Tel ég brot bæði felast beinlínis í ákvæðum settra laga og einnig í framkvæmd laga svo sem lýst var í nefndu sératkvæði í máli nr. 491/2007. Að auki er hér um að ræða refsimál en stjórnarskráin hefur að geyma ákvæði í 69. gr. sem felur í sér sérstakar kröfur til skýrleika laga sem heimila refsingu. Við þessar aðstæður hlýt ég að komast að sömu niðurstöðu og í máli nr. 491/2007. Ber því að mínum dómi að sýkna ákærðu og leggja sakarkostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð," að því er segir í sératkvæði Jóns Steinars.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert