Skila lóðum á Glaðheimasvæðinu

Glaðheimasvæðið í Kópavogi.
Glaðheimasvæðið í Kópavogi. MYND/Rax

Fasteignafélagið SMI, fyrirtækið sem byggði Smáratorg og Glerártorg, hefur skilað inn þremur lóðum sínum á Glaðheimasvæðinu gegnt Smáralind í Kópavogi.

Davíð Freyr Albertsson, framkvæmdastjóri SMI, segir markaðsaðstæður það óljósar að ekki sé ábyrgt fyrir félagið að byggja verslunar- og skrifstofuhúsnæði á lóðunum þremur. Hann segir að að öllu eðlilegu hefðu framkvæmdir átt að hefjast í lok ársins 2009 og húsin risið á þremur árum.

„Byggja átti tugþúsundir fermetra en vegna efnahagsástandsins hefur dregið úr eftirspurnin eftir skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Við ákváðum því að skila lóðunum,“ segir Davíð.

Fyrirtækið hafði aðeins greitt hluta kaupverðsins í bæjarstjóð og fær hann endurgreiddan.

Fasteignafélagið SMI keypti byggingarétt á lóðum á Glaðheimasvæðinu eins og Kaupangur eignarhaldsfélag í ársbyrjun 2007. Samtals áttu félögin að greiða 6,5 milljarða króna fyrir þær. Kaupangur hefur ekki skilað lóðum sínum inn.

Kópavogsbær keypti Glaðheimasvæðið af fjárfestingarfélagi og hestamannafélaginu Gusti árið 2006 og nam kostnaður við kaupin alls um 3,5 milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert