Færði Herdísi treyju Kristjáns

Þorgerðir Katrín afhendir Herdísi notaða treyju af uppáhaldsdrengnum hennar, Kristjáni …
Þorgerðir Katrín afhendir Herdísi notaða treyju af uppáhaldsdrengnum hennar, Kristjáni Arasyni. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Fjölmenni fagnaði með Herdísi Albertsdóttur á Ísafirði í dag þegar hún hélt upp á 100 ára afmæli sitt. Herdísi, eða Dísu Alberts eins og hún er þekkt í daglegu tali, voru færðar margar góðar gjafir. Meðal annars afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Herdísi keppnistreyju Kristjáns Arasonar, eiginmanns síns.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, færði Herdísi blómvönd fyrir hönd sveitarfélagsins og sagði Herdís það vera fyrstu gjöfina á allri hennar tíð sem hún þægi frá bænum. Þá voru henni afhent gullmerki frá HSV og Íþróttafélaginu Herði á Ísafirði.

Eins og flestir sem þekkja til Dísu vita, er ákafari stuðningsmann íslenska landsliðsins í handbolta varla hægt að finna, og fékk hún því innrammaða áritaða treyju í afmælisgjöf frá landsliðinu.

Þá færði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra henni treyju frá eiginmanni sínum, stórskyttunni Kristjáni Arasyni, sem hann hefur keppt í. Gat þó menntamálaráðherra ekki ábyrgst að af henni væri engin lykt þar sem vel hefur verið tekið á í henni. Afmælisbarnið var þó engu að síður mjög lukkulegt með gjöfina þar sem Kristján var hennar uppáhalds leikmaður í landsliðinu.

Herdís hefur alla tíð búið í húsi sínu við Sundstræti eða þar til í sumar er hún fór á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Afmælisbarnið er stálhraust og ber sig vel að sögn dótturdóttur sinnar, Kristjönu Sigurðardóttur. Þess má geta að í afmælinu var mætt vinkona hennar af Bökkunum, Torfhildur Torfadóttir, sem er elsti núlifandi Vestfirðingurinn, 104 ára. En þær stöllur eru nú elstu Ísfirðingarnir.

Vinkonurnar Torfhildur Torfadóttir og Herdís Albertsdóttir. Samanlagður aldur þeirra er …
Vinkonurnar Torfhildur Torfadóttir og Herdís Albertsdóttir. Samanlagður aldur þeirra er 204 ára.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert