Samstarf um að fjölga komum ferðamanna til Íslands

Gullfoss.
Gullfoss. mbl.is/RAX

Borgun, American Express og Icelandair hafa náð samkomulagi um sameiginlegt markaðsátak til að fjölga komum erlendra ferðamanna til Íslands með því að hvetja milljónir American Express korthafa frá ýmsum löndum Evrópu til að heimsækja landið. 

Fram kemur í tilkynningu að átakið, sem nú sé hafið, kallist Discover Iceland og standi til 30. apríl 2009.

Átakið beinist að því að vekja athygli American Express korthafa á sérstæðri náttúru og ferðamannastöðum á Íslandi um leið og kynnt verða hagstæð flugfargjöld og gistimöguleikar, auk afslátta hjá bílaleigum, verslunum og veitingastöðum víðsvegar á landinu.

Discover Iceland verður kynnt milljónum American Express korthafa í Evrópu eftir hefðbundnum leiðum í beinni markaðssetningu. Kynningarefni verður sent korthöfum American Express víða í Evrópu þar sem tilboð á vetrarferðum til Íslands verða tíunduð og þeim boðið að upplifa allt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða; einstakar náttúruperlur, veitingastaðir á heimsmælikvarða og einstök verslunartækifæri. Einnig verður opnaður sérstakur kynningarvefur um átakið sem verður aðgengilegur á ensku, rússnesku, frönsku, þýsku og ítölsku.

Átakið er samstarfsverkefni Borgunar, þjónustuaðila American Express á Íslandi, Icelandair og Kreditkorta, sem er útgefandi American Express korta á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert