Skipið komið í tog

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar er nú kominn með fiskibátinn, sem var aflvana út af Reykjanesskaga, í tog. Báturinn, Grímsnes GK–555, verður sennilega reginn til hafnar í Njarðvík. Sami bátur strandaði á sandrifi við Meðalland í gær og fylgdi varðskip honum síðan til Vestmannaeyja.

Auk björgunarskipsins Odds V. Gíslasonar í Grindavík, sem nú er með Grímsnes í togi, fór einnig af stað björgunarskip frá Sandgerði og harðbotna björgunarbátar. Viðbúnaður björgunarsveita á Suðurnesjum var einnig nokkur en þær voru tilbúnar til aðgerða ef skipið ræki upp í fjöru.

Grímsnes GK er 180 brúttólesta og 33 metra stálskip. Það strandaði á sandrifi 3,2 sjómílur norðaustur af Skarðsfjöruvita á Meðallandssandi í gærmorgun en komst aftur á flot. Sjókælir bátsins skaddaðist hins vegar. Varðskip tók bátinn í tog en skipverjum tókst í gær að gangsetja aðalvél Grímsness GK og sigla bátnum á hægri ferð fyrir eigin vélarafli. Þá var ákveðið að losa dráttartaugina.

Grímsnes kom til Eyja um miðnættið og virðist hafa haldið áfram ferð sinni til Reykjaness.

 


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert