Yfir 100 manns sagt upp hjá Húsasmiðjunni

Húsasmiðjan segir 99 fastráðnum starfsmönnum fyrirtækisins upp um mánaðamótin. Þá verður töluverðum fjölda lausamanna sagt upp. Þetta kom, samkvæmt heimildum mbl.is, fram á fundum, sem haldnir hafa verið með starfsfólki fyrirtækisins, í dag og kvöld.

Stjórnendur Húsasmiðjunnar hafa að undanförnu þingað um aðhaldsaðgerðir vegna verulegs samdráttar í sölu hjá verslunum fyrirtækisins. Sömuleiðis hefur skuldastaða fyrirtækisins verið mjög erfið en reksturinn hefur að stórum hluta verið fjármagnaður með erlendum lánum.

Í dag var tilkynnt að fundað yrði með starfsmönnum hverrar rekstrareiningar fyrir sig og voru fundir tímasettir eftir lokun. Síðasti fundur verður í Skútuvogi en þar er opið til klukkan 21 í kvöld. 

Um 750 manns starfa hjá fyrirtækinu og er því rúmlega tíunda hluta starfsmanna sagt upp nú. Fyrr á árinu gripu stjórnendur Húsasmiðjunnar til aðhaldsaðgerða og sögðu þá upp starfsfólki.

Húsasmiðjan rekur 21 verslun og á auk þess Blómaval, EGG, Ískraft og heildverslun HGG og eru þessar verslanir samtals 31 á landsvísu. 

Verslun Húsasmiðjunnar í Ögurhvarfi í Kópavogi verður lokað og sömuleiðis pípuverslun fyrirtækisins í Skútuvogi. Afgreiðslutími verslana  Húsasmiðjunnar og Blómavals í Skútuvogi verður styttur frá því sem nú er og veðrur aðeins opið til klukkan 19 í stað 21 eins og nú er.

Þá er ætlunin að timbursölunni í Súðarvogi verði lokað og timbursala flytjist í verslanir Húsasmiðjunnar í Grafarholti og Skútuvogi.

Ætlunin er að efla rekstur Húsasmiðjunnar í Grafarholti en  þýska byggingavöruverslunarkeðjan Bauhaus hyggst opna þar verslun, þó þeim áformum hafi verið slegið á frest í bili.

Einhverjum þeirra fastráðnu starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf verður boðin vinna í öðrum deildum fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert