Ákærum vísað frá

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá tveimur ákærum á hendur manni vegna líkamsárása. Maðurinn hótaði m.a. öðrum manni og réðist síðan á hann. Samskipti þeirra voru tekin upp á myndband og sýnd í Kompásþætti Stöðvar 2. Ákæruvaldið getur gefið út ákæru að nýju.

Maðurinn, Benjamín Þór Þorgrímsson, var m.a. ákærður fyrir að ráðast á  Ragnar Ólaf Magnússon í júlílok en samskipti þeirra voru sýnd í þættinum Kompási nú í haust. Benjamín var einnig ákærður fyrir að ráðast á annan mann í byrjun júlí.

Ákæra vegna árásanna var send héraðsdómi með bréfi lögreglustjóra sama dag, sem ásamt gögnum málsins var móttekin í héraðsdómi 18. september 2008. Ákæran var í tveim köflum. Í kjölfar þess að ákæran var send héraðsdómi fór ákæruvaldið þess á leit að fá að senda héraðsdómi nýtt eintak ákærunnar sem var gert.

Hið nýja eintak ákærunnar var einnig dagsett 16. september 2008 og undirritað af sama ákæranda. Samkvæmt nýju ákærunni var Benjamín jafnframt gefið að sök hótanir gagnvart Ragnari Ólafi.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Benjamíns, krafðist þess að báðum ákærunum yrði vísað frá dóminum þar sem framangreind meðferð á málinu stríddi gegn ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Því hafnaði ákæruvaldið.  

Héraðsdómur segir hins vegar í úrskurði sínum, að eftir að ákæruvald hafi tekið ákvörðun um útgáfu ákæru sé því þröngar skorður settar um leiðréttingu eða breytingu á ákæru. Verði það ekki gert nema með útgáfu framhaldsákæru en að öðrum kosti sé ákæruvald bundið af ákæru sem gefin hefur verið út. Eigi ákæruvaldið þann eina kost að afturkalla ákæru, sem leiði þá til þess að mál verði þar með endanlega fellt niður.

Í þessu máli hafi ákæruvaldið sent héraðsdómi nýtt eintak ákæru sem þegar hafði verið gefin út og send héraðsdómi. Hið nýja eintak hafi í kjölfarið verið birt fyrir ákærða. Engin stoð sé fyrir slíkri útgáfu á ákæru í lögum. Þar sem tvö eintök af ákæru með sömu dagsetningu hafi verið gefin út verði óhjákvæmilegt að vísa þeim báðum frá dómi. Ákæruvald eigi þá kost á því að gefa út ákæru á nýjan leik þannig að enginn velkist í vafa um hvert sé efni þeirrar ákæru sem til meðferðar er.

Tekið er fram í úrskurðinum, að málinu verði þó ekki vísað frá dóminum í heild sinni þar sem ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem var gefin út 20. nóvember sl. sé enn rekin fyrir dóminum, en mál samkvæmt þeirri ákæru var sameinað þessu máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert