Gagnrýna sýknudóm í kynferðisbrotamáli

Femínistafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem fordæmdur er sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands yfir sóknarprestinum á Selfossi í gær. Segir félagið í ályktuninni, að orð og upplifun stúlkna, sem kærðu prestinn, hafi verið að engu höfð og líkamsréttur þeirra og mannréttindi virt að vettugi af dómstólum. 

Þessi dómur falli á meðan alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundi ofbeldi í standi yfir. Markmiðið sé að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindarbrot og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þolenda.  Einnig að upplýsa samfélög og ekki síst fólk í lykilstöðum um alvarleika kynbundis ofbeldis og hversu lítinn félagslegan möguleika konur hafi til að leita réttar síns.

„Femínistafélag Íslands fordæmir kynferðislegt ofbeldi og þar með sýknudóm héraðsdóms Suðurlands. Femínistafélagið gerir þá kröfu að ríkisstjórn Íslands geri það að forgangsatriði að uppræta kynbundið ofbeldi og standi við alþjóðlegar yfirlýsingar. Það nægir ekki að baráttan gegn ofbeldi sé í innantómu orði; hún þarf að vera borin á borð," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert