Eignirnar rýrnuðu um 200 milljarða

Hrein eign lífeyrissjóðanna rýrnaði um rúma 200 milljarða króna í októbermánuði og nam 1.636 milljörðum króna í lok mánaðarins. Að sögn Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, eru þessar tölur, sem koma frá Seðlabankanum, þær fyrstu sem snerta efnahag lífeyrissjóðanna eftir hrun íslensku bankanna.

Innlend hlutabréf í eigu sjóðanna lækkuðu verulega í október, eða úr 141 milljarði í rúma 35 milljarða. Eign í innlendum hlutabréfasjóðum lækkaði um 49 milljarða og verðbréf innlánsstofnana um 35,4 milljarða. Eignir í erlendum hlutabréfasjóðum lækkuðu um rúma 22 milljarða í október.

Hrafn bendir á að enn sé mikil óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna. „Ég býst við að eignir lífeyrissjóðanna hafi lækkað um 15% vegna áfalla fjármálakreppunnar hér innanlands í október síðastliðnum. Lækkunin er þó meiri ef miðað er við frá síðustu áramótum vegna óhagstæðrar þróunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum,“ segir Hrafn en þannig hafa erlendar hlutabréfavísitölur lækkað um allt að 50% frá áramótum.

„Veiking krónunnar vegur þó að nokkru leyti á móti þessum lækkunum. Heildarlækkun frá áramótum liggur því ekki fyrir og kann að vera misjöfn á milli sjóða,“ segir Hrafn en bendir á að ávöxtun lífeyrissjóðanna hafi verið mjög góð á síðustu árum, eða að meðaltali yfir 9% raunávöxtun á hverju ári síðustu fimm árin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert