Stómavörur aftur gjaldfrjálsar

Allt útlit er fyrir að nýkynnt hækkun ríkisins á styrkjum vegna kaupa á hjálpartækjum dugi fyrir þeim hækkunum sem urðu á stómavörunum nýverið vegna gengisbreytinga. Þetta segir Geirþrúður Pálsdóttir, deildarstjóri Coloplast á heilbrigðissviði Icepharma, sem flytur inn stómavörur.

Að sögn Geirþrúðar neyddist fyrirtækið til þess að hækka verð á stómavörum 6. nóvember sl. um 30% vegna gengishækkana, en það var fyrsta hækkun á þessum vörum síðan 1. október 2002.

„Innflytjendur hafa setið á sér og tekið á sig allar erlendar hækkanir,“ segir Geirþrúður og tekur fram að danska fyrirtækið sem Icepharma kaupir stómavörurnar af hafi sýnt Icepharma mikinn skilning í stöðunni og veitt töluverðan aukaafslátt á vörunum vegna þeirrar stöðu sem ríkt hafi á Íslandi meðan Icepharma var að bíða svara við fyrirspurn sinni til heilbrigðisráðuneytisins þar sem sótt var um hækkun á styrkjum til kaupa á stómavörum. Tekur Geirþrúður fram að 14 mánuðir séu síðan fyrirtækið sendi ráðuneytinu fyrst fyrirspurn sína.

Samkvæmt fyrrgreindri reglugerð hækka styrkir til kaupa á stómavörum um 40%. Geirþrúður bendir á að á tímabilinu frá 1. október 2002 til 6. nóvember 2008 þegar verðhækkanir urðu á stómavörum hafi vísitala neysluverðs hækkað um 70%. Hún fagnar nýju reglugerðinni en tekur fram að sér finnist þó gagnrýnisvert að upphæðir séu ekki gengistryggðar líkt og gildi um allar aðrar útboðsvörur hjá ríkinu.

Í samtali við smásöluaðila stómavara, sem eru Eirberg, Lyfja og Lyf og heilsa, fékkst það staðfest að hækkun styrkjanna dygði fyrir gjaldskrárhækkunum sem þýði að stómavörur verða aftur gjaldfrjálsar fyrir stómasjúklinga. Ekki liggur hins vegar ljóst fyrir hver greiðsluþátttaka TR verður og hvort sjúklingar fá endurgreitt fyrir útlagðan kostnað sinn á tímabilinu frá 6. nóvember, þegar stómavörur hækkuðu frá innflytjanda um 30%, þar til 5. desember, þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tók gildi. Samkvæmt upplýsingum blaðamanns greiddu stómasjúklingar á bilinu 10-50 þúsund krónur fyrir vörur sínar á fyrrgreindu tímabili. Hvorki fengust svör frá TR né heilbrigðisráðuneytinu um hvort og hvernig greiðsluþátttökunni yrði háttað fyrir síðasta mánuð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert