Bretar veita enn ekki viðunandi svör

Viðunandi svör hafa enn ekki fengist við því frá breskum stjórnvöldum hvenær frystingu eigna íslenskra banka í Bretlandi verði aflétt, samkvæmt upplýsingum Kristjáns Kristjánssonar, fjölmiðlafulltrúa forsætisráðherra.

Kristján sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að bresk yfirvöld hafi enn ekki gert grein fyrir því hvers vegna eignirnar hafi verið frystar eða hvort von sé á því að frystingunni verði aflétt. Við því fáist hreinlega engin svör.

Samningaviðræður standa yfir á milli breskra og íslenskra yfirvalda og segir Kristján að gerð verði grein fyrir þeim viðræðum þegar niðurstöður fáist í þær.  Þá segir hann að greint hafi verið frá eina samkomulaginu sem gert hafi verið við Breta til þessa á heimasíðu ráðuneytisins

Í umræddri frétt ráðuneytisins segir m.a. að með samkomulaginu hafi mikilvægur áfangi náðst til lausnar deilunnar um innstæðutryggingar vegna íslenskra bankaútibúa á Evrópska efnahagssvæðinu og stöðu sparifjáreigenda í þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert