Einn af hornsteinum frumkvöðlarannsókna

HR semur um frumkvöðlarannsóknir, fv.William D. Bygrave, stofnandi GEM-rannsóknarinnar, Svafa …
HR semur um frumkvöðlarannsóknir, fv.William D. Bygrave, stofnandi GEM-rannsóknarinnar, Svafa Grönfeldt og Pia Arenius, form stjórnar GEM-samstarfsins. mbl.is

Háskólinn í Reykjavík er orðinn einn af hornsteinum Global Entrepreneurship Monitor (GEM) rannsóknarinnar, sem er umfangsmesta alþjóðlega rannsókn á frumkvöðlasamstarfi í heiminum.

Samkomulag um þetta forystuhlutverk HR var undirritað við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík í morgun. Undir samkomulagið rituðu Pia Arenius, formaður stjórnar GEM-samstarfsins og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík. Enn fremur voru viðstödd athöfnina William D. Bygrave, prófessor emeritus við Babson College, en Bygrave er annar stofnenda GEM-rannsóknarinnar og Kristie Seawright, framkvæmdastjóri GEM-samstarfsins.

Í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík kemur fram að aðrir háskólar sem leiða GEM samstarfið á næstu þremur árum eru Babson College, sem er talinn fremsti háskóli Bandaríkjanna á svið frumkvöðlafræða og –rannsókna og London Business School.

GEM-rannsóknarverkefnið hófst fyrir 9 árum. Með tilkomu þessarar rannsóknar var í fyrsta skipti aflað samanburðarhæfra gagna um frumkvöðlastarfsemi víðsvegar að úr heiminum. Árlega taka fulltrúar frá 66 þjóðum þátt í verkefninu og hefur Háskólinn í Reykjavík (HR) tekið þátt fyrir Íslands hönd frá árinu 2002.

HR mun leggja áherslu á að nýta GEM sem samstarfsvettvang um frumkvöðlamenntun. Í því felst að þátttakendur hjálpist að við að byggja upp aðferðir og aðstöðu til þess að þjálfa og styðja við frumkvöðla um allan heim. Þar sem þátttakendur koma frá yfir 60 löndum í öllum heimsálfum er hægt að nýta þekkingu og reynslu frá mjög ólíkum aðstæðum við uppbyggingu frumkvöðlamenntunar í hverju landi og veita frumkvöðlum aðgang að sérfræðingum um allan heim.

Sem fyrsta skrefið í uppbyggingu þessa samstarfsvettvangs munu HR og Babson College starfa saman að uppbyggingu frumkvöðlamenntunar innan HR. Nær það samstarf til þeirrar menntunar og stuðnings sem boðin er upp á í skólanum og í gegnum Klak, nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins. Mikilvægur þáttur í samstarfinu er að byggja upp umhverfi sem dregur áhugasama nemendur að skólanum og hvetur þá til dáða á meðan á náminu stendur.

Ávinningur HR af samstarfinu er í meginatriðum þríþættur:

1) Vörumerki HR verður alþjóðlega sýnilegt sem leiðandi aðili á alþjóðlegum samstarfsvettvangi um frumkvöðlastarfsemi. Sýnileika HR mun gæta jafnt í rannsóknarniðurstöðum samstarfsins og nýjungum á sviði frumkvöðlamenntunar.

2) HR fær tækifæri til þess að byggja upp frumkvöðlamenntun sína með aðstoð leiðandi aðila í heiminum. Babson College hefur síðustu 9 árið verið valinn sem besti skóli á sviði frumkvöðlamenntunar í Bandaríkjunum. Skólinn er af svipaðri stærð og HR og hefur svipaðar áherslur í kennslu.

3) HR fær aðgang að alþjóðlegu samstarfsneti sérfræðinga um frumkvöðlastarfsemi sem meðal annars býður upp á möguleika á svæðisbundinni aðstoð fyrir frumkvöðla á helstu markaðssvæðum í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert