Forseti hafni fjárlagafrumvarpi

mbl.is

Stofnað hefur verið til áskorunnar til forseta Íslands um að samþykkja ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Þar segir að frumvarpið muni velta gríðarlegum skuldaklafa yfir á almenning í landinu til margra ára. Það hafi verið samið að tilmælum AGS og þrýstingi frá ESB og sé því aðför að fullveldi Íslands.

„Frumvarpið festir í sessi þá áætlun ríkisstjórnarinar að láta almenning í landinu borga brúsann fyrir fjármálaóreiðu, ábyrgðarleysi og óheilindi fjárglæframanna og vina þeirra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn í stað þess að sækja þá til saka sem raunverulega ábyrgð bera,“ segir ennfremur í áskoruninni.

„Núverandi ríksstjórn ber að stórum hluta ábyrgð á hvernig komið er og er rúin trausti. Þar sem hún var kjörin við allt aðrar aðstæður og til allt annara verka er hún í sjálfu sér umboðslaus til að takast á við verkefnið. Þar sem núverandi Alþingi hefur að því er virðist nánast lagt sjálft sig niður, þá er það óskoruð krafa okkar að þér synjið frumvarpinu samþykkis og að það muni í framhaldinu finna viðeigandi sess á öskuhaug sögunnar.

Ef einhvern tíma í sögu lýðveldisins hefur tilefni verið til slíkrar aðgerðar er það nú. Við landsmenn eigum skýlausan lýðræðislegan og siðferðislegan rétt til þess að fá að segja hug okkar um þetta frumvarp og þar með framtíð þjóðarinnar, í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Áskorunina má finna á síðunni www.this.is/askorun þar sem þeir sem telja sig geta samþykkt hana eru hvattir til að senda hana áfram. Það er m.a. Hörður Torfason sem stendur baki áskoruninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert