Leynd gagnvart skatti á ekki rétt á sér

Ríkisskattstjóri segir, að kveða þurfi skýrt á um það í lögum að bankastofnunum verði gert skylt að senda upplýsingar í lok hvers árs um bankainnistæður, vaxtatekjur, skuldir og vaxtagjöld.

Þetta kemur fram í grein, sem Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, skrifar í Tíund, blað embættisins. Hann segir að jafnframt eigi að afhenda skattayfirvöldum upplýsingar um hvernig eignarhaldi sé háttað á félögum, sem undanfarin ár hafa verið í umsjá íslenskra banka erlendis. Þannig yrði það afdráttarlaust viðurkennt að leynd gagnvart skattyfirvöldum eigi ekki rétt á sér og því verði unnt að tryggja betur jafnræði, hlutlægni og samræmi í skattlagningu.

„Það er mikilvægt við þær aðstæður sem nú ríkja að tekið verði af skarið og gerðar þær breytingar sem svipt geti brott þeim leyndarhjúp sem varnað hefur því að tryggt sé að allir greiði sín lögboðnu gjöld," segir Skúli Eggert í greininni.  „Aðeins þannig næst réttmæt skattframkvæmd og réttlát jöfnun þeirra byrða sem komandi kynslóðum er ætlað að bera."

Tíund

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert