Farþegum verði komið heim án aukakostnaðar ef illa fer

Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli.
Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/ÞÖK

Fari illa hjá flugrekanda eða ferðaskrifstofu meðan fólk er á ferðalögum á að vera tryggt að það komist til síns heima án aukakostnaðar. Ferðaskrifstofum er skylt að leggja fram gjaldþrotatryggingar, en þær eru vistaðar hjá Ferðamálastofu sem er stofnun undir iðnaðarráðuneytinu. Að sögn Helenu Þ. Karlsdóttur, lögfræðings Ferðamálastofu, er tekið mið af veltu ferðaskrifstofa þegar tryggingaupphæðin er ákveðin. „Samkvæmt lögum um skipan ferðamála er möguleiki að taka taka veltu tveggja söluhæstu mánaða í röð, 35% af veltu fjögurra söluhæstu mánaða í röð eða 15% af heildarveltu á ári. Ferðaskrifstofur þurfi að skila inn gögnum og áætlunum til Ferðamálastofu og þar eru málin skoðuð og mat lagt á hversu hátt tryggingagjaldið þarf að vera hjá hverri ferðaskrifstofu fyrir sig.

Ferðist fólk á eigin vegum en hafi pantað far með flugrekanda á jafnframt að vera tryggt að það verði ekki strandaglópar, fari illa í rekstri félaga. Í íslenskri reglugerð um flutningaflug, sem byggð er á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, segir um flugrekstrarleyfi að flugrekanda beri árlega að skila inn fjárhagsáætlun og efnahagsreikningi fyrir endurnýjun flugrekstrarleyfisins til Flugmálastjórnar Íslands. Þar er kveðið á um að umsækjandi geti í þrjá mánuði frá upphafi rekstrar staðið undir föstum útgjöldum og rekstrarkostnaði vegna starfsemi samkvæmt viðskiptaáætlun og á grundvelli raunhæfra forsendna án þess að tekið sé tillit til tekna af rekstri félagsins. Þá getur Flugmálastjórn Íslands kallað eftir fjárhagsgögnum íslenskra flugrekenda hvenær sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert