Staðið verði við kröfur

eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

„ÞAÐ kemur ekki til greina af okkar hálfu að fella niður kröfur. Það er alveg á hreinu,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar gamla Glitnis.

Forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa að undanförnu þrýst á um að kröfur vegna afleiðu- og gjaldmiðlaskiptasamninga verði felldar niður þar sem þeir telja að forsendur samninga sem gerðir voru séu brostnar.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands útgerðarmanna, segir forsvarsmenn margra sjávarútvegsfyrirtækja telja nauðsynlegt að ná samkomulagi um uppgjör samninga. „Það er verið að fara yfir þessi mál í heild. Staðan er að mörgu leyti flókin þar sem afleiðusamningarnir urðu eftir í gömlu bönkunum en fluttust ekki yfir í þá nýju. Það þarf að meta hvernig samningarnir standa í ljósi gjörbreyttra aðstæðna. Fyrirtæki eiga ýmist inni fé eða skulda eftir atvikum.“

Milljarðatuga samningar

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins nema kröfur sem gömlu bankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, eiga á sjávarútvegsfyrirtæki tugum milljarða kr.

Engar kröfur hafa verið felldar niður og það stendur ekki til, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hins vegar vinna skilanefndirnar að því að leysa úr vandamálum sem kunna að koma upp, meðal annars með því að endurmeta lánasamninga og þess háttar.

Þeirri vinnu, er varðar sjávarútvegsfyrirtækin sérstaklega, er ekki lokið og ekki víst hvenær það verður.

Framtíð margra sjávarútvegsfyrirtækja í landinu er í nokkurri óvissu vegna þessara samninga, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Skuldastaða þeirra er erfið meðal annars vegna mikillar veikingar krónunnar á árinu og mega þau illa við frekari skakkaföllum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert