Borgarsjóður verði rekinn hallalaus

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 er gert ráð fyrir því að A-hluti borgarsjóðs verði rekinn hallalaus. Gert er ráð fyrir að heildartekjur og heildargjöld að meðtöldum afskriftum muni nema 57,3 milljörðum kr. Áætlað er að heildareignir borgarinnar verði í árslok 2009 um 93,5 milljarðar kr. og að eiginfjárhlutfall borgarinnar verði áfram sterkt eða 63%.

Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að frumvarpið geri ráð fyrir því að álagningarhlutföll útsvars (13,03%), fasteignaskatta, lóðarleigu og holræsagjalds verði ekki hækkuð. Gjalddögum fasteignagjalda verði fjölgað úr sex í níu í því skyni að dreifa greiðslubyrðum almennings og fyrirtækja. 

Þá verða útgjöld til velferðarmála aukin um 19,3%. Til dæmis eru framlög til fjárhagsaðstoðar hækkuð um 640 milljónir króna.

Frumvarpið var lagt fram í borgarstjórn í dag eftir samvinnu aðgerðarhóps borgarráðs sem skipaður er fulltrúum meirihluta og minnihluta á grundvelli aðgerðaáætlunar borgarstjórnar, sem samþykkt var einróma í borgarstjórn Reykjavíkur í byrjun október.  Aðgerðaráætlunin var sett fram til þess að bregðast við því ástandi sem nú er uppi í efnahags-, atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar, segir í tilkynningu frá borginni. 

Lögð áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu, störf og verðskrár.

Þar segir jafnframt að í aðgerðaráætluninni sé megináhersla lögð á að standa vörð um grunnþjónustu, störf og verðskrár. Þær áherslur endurspeglist í fjárhagsáætluninni sem hafi það að meginmarkmiði að tryggja umrædda þætti, með ábyrgri fjármálastjórn, stöðugleika í rekstri og raunsæi í áætlanagerð.

Hagrætt verður verulega í stjórnsýslunni og alls staðar þar sem því er hægt að koma við. Búið er að draga saman kostnað um stórar fjárhæðir sem hlaupa á milljörðum og mæta þarf enn frekari hagræðingu upp á rúma tvo milljarða til viðbótar. Þetta er meðal annars gert með því að endurskoða öll rekstrarútgjöld, stórfelldu aðhaldi í innkaupum, endurskoðun samninga og með því að draga úr styrkveitingum. Laun borgarfulltrúa og æðstu stjórnenda verða lækkuð um 10% og kostnaður vegna yfirvinnu verður endurskoðaður samhliða því sem dregið verður úr nýráðningum.

Stefnt er að því að fjárfesta fyrir um 7 milljarða króna,  auk rúmlega 1 milljarðs sem varið verður til viðhalds- og rekstrarverkefna Eignasjóðs.  Miðað er við mannaflsfrekar fjárfestingar og viðhald til að virkja sem flesta vinnufæra menn og konur og vinna þannig á móti samdrætti og atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert