Ísland á hálfvirði

Fólk víðs vegar að úr heiminum, sem alltaf hefur langað að koma til Íslands en ekki haft efni á því sér nú fram á möguleikann á að láta þann draum sinn rætast, samkvæmt því sem fram kemur í grein í bandaríska blaðinu The Washinton Post.

Greinin ber fyrirsögnina: Ísland á hálfvirði fyrir þá sem leita tilboða. Þar segir að landið sé nú kallað Halfpriceland eftir að hrun bankanna og gengisfall krónunnar gerðu það að verkum að verðlag hér á landi, sem hafi verið stjarnfræðilegt, varð jarðbundið. Þá segir að erlendir ferðamenn séu þegar farnir að koma í helgarferðir til Reykjavíkur, sem áður hafi verið svo dýr að New York og London hafi virst sanngjarnar í samanburðinum.

Haft er eftir forsvarsmönnum Icelandair að bókun á ferðum til Íslands hafi fjölgað um 90% frá síðasta ári á tímabilinu desember til mars og þar af hafi bókunum frá Bretlandi fjölgað um 48%. Þetta sé sérlega athyglisvert í ljósi þess að um sé að ræða þann tíma sem fram til þessa hafi verið minnsti ferðamannatíminn á Íslandi. Þá segir að sú breyting hafi orðið á að ferðamenn komi nú fremur til Íslands til að versla en upplifa náttúruna.

Haft er eftir Ingólfi Haraldssyni hótelstjóra á Hilton Reykjavik Nordica Hotel, að  nokkuð sé um að gestir, sérstaklega frá Bretlandi, hringi áður en þeir komi, og panti tíma í skartgripaverslun hótelsins, þar sem seldir séu sérhannaðir skartgripir. Slíkt hafi hann aldrei upplifað fyrr.  

„Ég hefði að öllu jöfnu komið þegar ég væri orðinn eldri og ætti meiri peninga en nú er það svo ódýrt,” segir ferðamaðurinn Andonis Marden, sem er 19 ára nemandi við Boston Northeastern Universityí Bandaríkjunum. Marden greip tækifærið er sá tilboð á netinu á ferðum til Íslands um bandarísku þakkargjörðarhelgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert