Brýnt að herða reglur um hegðan á fjármálamarkaði

„Tækni þeirra sem hafa hag af því að koma hlutum í uppnám, spila á kerfið og veðja gegn hagsmunum almennings, hefur líka fleygt fram. Þess vegna er mjög brýnt að herða reglur um hegðan á fjármálamarkaði og taka fast á öllum brotum,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu í kvöld.

Geir Haarde sagði Íslendinga kveðja árið með blendnum huga, í efnahagslegum skilningi mætti tala um hörmungarár. Fjármálakerfi þjóðarinnar hafi orðið fyrir miklu áfalli og kjör almennings hafi versnað frá því sem áður var. „Þeir atburðir sem hér urðu í fjármálaheiminum á síðasta ársfjórðungi gnæfa yfir annað sem gerðist á árinu. Eigi að síður var fyrri hluti ársins á margan hátt góður og gjöfull, sumarið yndislegt og við eigum flest einhver gull í minningakistunni frá þeim tíma og reyndar einnig silfur í handbolta frá ólympíuleikunum í Kína. Látum ekki yfirstandandi erfiðleika, sem eru tímabundnir, yfirskyggja alla okkar tilveru; leyfum okkur að gleðjast í kvöld og horfum vongóð til framtíðar.“

Geir sagði ljóst að nýtt ár yrði erfitt mörgum einstaklingum og fjölskyldum, ekki síður en atvinnulífi og ríkissjóði en mestu skipti hvernig tekið yrði á vandanum. Landinn mætti ekki láta bugast heldur ganga til móts við nýtt ár sem nýja áskorun um að koma hlutum í betra horf.

„Á fyrri hluta ársins, sem nú er kvatt, hlóðust upp óveðursský yfir efnahagslífi heimsins og skall það óveður á Íslandi á haustmánuðum eftir að hafa fellt mörg stór fyrirtæki, banka og fjármálastofnanir austan hafs og vestan. Því miður reyndust innviðir fjármálalífs hér á landi ekki nógu sterkir til að standast þetta áhlaup. Ég gerði grein fyrir þessu í ávarpi mínu til þjóðarinnar þann 6. október sl. Síðan þá höfum við Íslendingar allir sem einn unnið hörðum höndum að því að ná tökum á ástandinu. Ég flyt þakkir þeim fjölmörgu sem lögðu nótt við dag í stofnunum ríkisins, fyrirtækjum, félagasamtökum, skólum og á heimilum til að þjóðfélagið okkar gæti starfað eðlilega við þær óeðlilegu aðstæður sem hér sköpuðust. Íslenska þjóðin sýndi þá enn og aftur hvað í henni býr.“

Geir sagði að frá því áfallið reið yfir hefði ástandið versnað víða um heim.

„Og því  miður er raunveruleg hætta á því að heimsbyggðin eigi eftir að sogast enn neðar í svelg efnahagskreppu af óþekktri stærð. Við þessar aðstæður er það nokkur bót fyrir okkur Íslendinga að hafa þegar í haust gripið til aðgerða og ráðist að okkar vanda í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nokkrar vinaþjóðir. Hitt er ljóst að forystumenn stærstu ríkja heims og ríkjabandalaga verða að setjast niður og smíða þau ráð sem duga til að forða heimsbyggðinni frá slíkum áföllum af mannavöldum.  Við höfum trúað því að síaukin þekking manna á gangverki efnahagslífsins dygði til að forða heimsbyggðinni frá áföllum sem þessum.  En vandinn virðist einnig sá að tækni þeirra sem hafa hag af því að koma hlutum í uppnám, spila á kerfið og veðja gegn hagsmunum almennings, hefur líka fleygt fram. Þess vegna er mjög brýnt að herða reglur um hegðan á fjármálamarkaði og taka fast á öllum brotum.“

Íslendingar verða að draga réttan lærdóm af því sem gerst hefur, sagði Geir og varðveita það sem gafst vel og breyta því sem miður fór.

„Frelsi fylgir ábyrgð. Margar aðgerðir bankanna og forystumanna þeirra báru ekki vitni þeirri ábyrgð sem með réttu mátti af þeim krefjast.  Hégómleg meðferð fjármuna þeirra sem fremstir fóru, bæði í bönkum og atvinnulífi, er móðgun við þann fjölda manna sem lagt hefur sitt af mörkum til að skapa þann auð sem þannig var sóað og spillt.“

Geir sagði íslensku þjóðina, fjölskyldurnar í landinu og ófæddar kynslóðir Íslendinga, eiga skilyrðislausan rétt á því að allur aðdragandi bankahrunsins verði rannsakaður til hlítar. Samstaða og sátt í íslensku samfélagi byggist á trausti og þeirri viðamiklu rannsókn, sem nú er hafin á vegum Alþingis, væri ætlað að skapa forsendur fyrir því að traust skapist á nýjan leik í þjóðfélaginu.

„Ég vil á þessari stundu segja beint og milliliðalaust við ykkur, kæru landsmenn, að ég ber sem forsætisráðherra ábyrgð á stjórn landsins og þá ábyrgð axla ég, hvort sem siglt er um lygnan sjó eða þungan.  Sá dagur líður ei hjá að ég spyrji mig ekki  hvort stjórnvöld hefðu getað komið í veg fyrir þá atburði sem urðu hér á landi í haust. Okkur hafa vissulega orðið á mistök í þeim hamförum sem riðið hafa yfir en það er engu að síður ljóst í mínum huga, að það var ekki á færi íslenskra stjórnvalda að afstýra hruni íslensku bankanna eftir að heimskreppan skall á af fullum þunga. Allar aðgerðir stjórnvalda að undanförnu hafa miðað að því að takmarka það tjón sem íslenska þjóðin mun óhjákvæmilega verða fyrir vegna bankahrunsins. Sú barátta hefur staðið dag og nótt og henni er hvergi nærri lokið. Í Íslendingum býr kraftur, þor, áræði og hugmyndaauðgi, en ljóst er af undangengnum atburðum að slíkir kostir geta snúist upp í andhverfu sína ef ekki fylgir auðmýkt.  Á miklum uppgangstímum geta örar framfarir og breytingar byrgt mönnum sýn. Hafi mér orðið á hvað þetta varðar þá þykir mér það leitt.“

Geir Haarde sagði tengsl Íslendinga við aðrar þjóðir hafa verið mjög til umræðu undanfarin ár. Íslendingar væru tortryggnari gagnvart erlendu valdi en margar aðrar þjóðar. Ástæðunnar væri að leita í sögu okkar og túlkun sögunnar.

„Nú er fjallað um það hvort Íslendingar eigi að stíga skrefið til fulls og gerast aðildarríki Evrópusambandsins. Þegar við tókumst síðast á um slík mál, um og upp úr 1990, var margt öðruvísi umhorfs í heiminum. Niðurstaðan varð sú að stíga það skref að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég tel að það hafi gefist vel. En ástæðan fyrir því að ekki var lengra farið á sínum tíma var fyrst og fremst sú að við Íslendingar vildum standa tryggan vörð um auðlindir okkar, hafa fullt forræði yfir þeim sjálfir. Vissulega er tímabært að taka þetta mál til yfirvegunar að nýju. Mat á því hvernig hagsmunum Íslands er best borgið er sífellt viðfangsefni stjórnmálanna. Við eigum ekki að nálgast það með fordómum. En ekki heldur halda því fram að hér sé einhverja töfralausn að finna. Hér er um langtíma viðfangsefni að ræða og þjóðin sjálf verður að skera úr um það hvert skal haldið í þessum efnum. En það er ábyrgð okkar stjórnmálamanna að haldið sé uppi vönduðum málflutningi um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, þannig að  kostirnir séu skýrir og réttir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert