ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?

mbl.is/Frikki

„Hvað verður um Evrópumálin í rauðgrænni stjórn? Er áhersla Samfylkingarinnar á þau í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn aðeins leið til að skapa átyllu til stjórnarslita og kosninga?,“ spyr Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra í pistli á heimasíðu sinni. Björn veltir því fyrir sér hvort hið sama sé að gerast nú og þegar vinstri menn, fyrir hálfri öld, notuðu varnarmál til að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Björn Bjarnason lítur rúm 50 ár aftur í tímann til að glöggva sig á stjórnmálaástandi líðandi stundar og stöðu stjórnarsamstarfsins við upphaf nýs árs. Hann rifjar upp að deilur um varnarsamninginn hafi verið miklar á stjórnmálavettvangi allt frá því að hann var gerður árið 1951 fram til 1974. Tvisvar á þessu tímabili, 1956 og 1971, hafi verið myndaðar vinstri stjórnir en báðar höfðu stjórnirnar á stefnuskrá sinni að varnarliðið hyrfi úr landi.

Björn segist rifja þetta upp til marks um, að samstaða um markmið í utanríkismálum, hafi ráðið því, að upp úr stjórnarsamstarfi slitnaði og flokkar tækju höndum saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.

„Nú hefur þjóðin gengið í gegnum mikil efnahagsleg áföll og ætla mætti, að ágreiningur um leiðir út úr þeim, setti mestan svip á stjórnmálaumræður, en þá ber svo við, að utanríkismál eru sett á oddinn, það er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB),“ segir Björn.

Hann segir við að hið sama gerist nú og veturinn 1955-56, að framsóknarmenn hlaupi á eftir þeim, sem boða nýja utanríkisstefnu, þvert á það sem vænta hefði mátt miðað við fyrri stefnu flokksins. Og Björn spyr fyrir hvað Framsóknarflokkurinn standi, þegar hann segi skilið við bændur á þennan hátt og leifar Sambands ísl. samvinnufélaga séu að engu orðnar.

Björn segir Sjálfstæðisflokkinn hafa brugðist þannig við sjónarmiðum samstarfsflokks síns, að landsfundi flokksins hafi verið flýtt, stofnuð hafi verið sérstök Evrópunefnd innan flokksins og boðað, að stefnan í Evrópumálum muni setja svip sinn á landsfund flokksins 29. janúar 2009. Á þessari stundu sé ekki unnt að fullyrða neitt um niðurstöðu landsfundar í Evrópumálum.

„Veturinn 1955 til 1956 sameinuðust andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gegn honum um sameiginlega stefnu í varnarmálum, stefnu, sem þeir vissu, að flokkurinn mundi aldrei samþykkja. Nú ber annað við, því að formaður Sjálfstæðisflokksins setur af stað umræðu innan eigin flokks til að fara yfir Evrópustefnuna og hreyfir í áramótagrein tillögu um ferli Evrópumála , sem á hljómgrunn í öllum flokkum. Nú á samstarfsflokkur sjálfstæðismanna ekki augljósa samfylgd með öðrum flokkum, því að Samfylkingin er ein á báti í Evrópumálum, hún á að minnsta kosti ekki samleið í þeim málaflokki með vinstri grænum,“ skrifar Björn.

Í viðtali við DV segist Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, bjargfast þeirrar sannfæringar að rétt sé að mynda hér rauðgrænt bandalag. Dómsmálaráðherra spyr hvað muni verða um Evrópumálin í slíku bandalagi.

„Er áhersla Samfylkingarinnar á þau í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn aðeins leið til að skapa átyllu til stjórnarslita og kosninga? Er hið sama að gerast og á sínum tíma, þegar vinstri menn notuðu varnarmál til að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn? Þá þóttust þeir þó samstiga um málstaðinn fram að kosningum. Nú er því ekki að heilsa, hvað sem síðan gerist að kosningum loknum.“

Pistill dómsmálaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert