Einhverf börn greinast loks

Aaron Ísak sem greindur var með einhverfu í desember með …
Aaron Ísak sem greindur var með einhverfu í desember með móður sinni Lindu Berry. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Háttí 300 einstaklingar greindust með fötlun á einhverfurófi á síðustu tveimur árum hér á landi, sem er gríðarleg aukning frá fyrri árum. Ætla má út frá íslenskum rannsóknum að 27 einstaklingar á einhverfurófi séu í hverjum árgangi. Hjörtur Grétarsson, formaður Umsjónarfélags einhverfra, segir uppsafnaða þörf helstu skýringuna.

„Það hefur verið mikill flöskuháls í greiningu á einhverfum hér á Íslandi,“ útskýrir hann. „Það er sem betur fer mikið að lagast og á síðustu tveimur árum voru hátt á þriðja hundrað einstaklingar greindir, 118 árið 2007 og áætlað um 150 árið 2008. Venjulega eru 27 greindir í nýjustu árgöngunum á Íslandi þannig að þarna var greinilega uppsöfnuð þörf fyrir greiningu. Ástæðan fyrir þessari miklu fjölgun er m.a. að þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við félagsmálaráðuneytinu setti hún aukið fjármagn í greiningarnar sem var mikið fagnaðarefni. Þetta er ofboðslega mikill léttir fyrir aðstandendur, núna vita þeir loksins hvað er að, búnir að fá staðfestingu á því og það verður mun léttara nú að fá þjónustu við hæfi.“

Hjörtur segir að það séu fyrst og fremst unglingar sem greinist núna, og þá með mildari afbrigði einhverfunnar, Asperger-heilkenni og ódæmigerða einhverfu. „Þessu þurfum við að fylgja eftir út í stuðningsnetið allt, með því að upplýsa fólk um hvað einhverfa er, því það er vissulega ansi mikið að fá allt í einu 300 manns greinda með einhverfu.“

Samkvæmt tölfræði ætti minnst einn af hverjum 160 að vera á einhverfurófi svo Hjörtur gerir ráð fyrir að um 1800 manns séu með fötlun á einhverfurófi á Íslandi. Af þeim sé búið að greina hátt á níunda hundraðið. „Hinn helmingurinn er í eldri árgöngunum,“ segir hann.

Rætt er við Aaron Ísak og Lindu Berry, sem sjást á meðfylgjandi mynd, í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert