Jóhanna fékk Rósina

Jóhanna Sigurðarsdóttir.
Jóhanna Sigurðarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, fékk í dag Rósina, hvatningarverðlaun fjölskyldu Ástu B. Þorsteinsdóttur og Landssamtakanna Þroskahjálpar en verðlaunin eru veitt árlega  í minningu Ástu fyrir framúrskarandi störf sem stuðla að þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu til jafns við aðra.

Í umsögn valnefndar  kemur m.a.  fram, að fáir ef nokkrir íslenskir stjórnmálamenn hafi á undanförnum árum beitt sér af eins miklum þunga fyrir auknum réttindum fatlaðra og Jóhanna Sigurðardóttir. Styrkur hennar hafi ætíð verið víðtæk þekking hennar á samfélagsmálum og sú sannfæring að það sé ein af meginskyldum samfélagsins að jafna lífsgæði fólks og tryggja því tækifæri þess til að njóta sín sem best á eigin forsendum.
 
Verðlaunin eru verðlaunagripurinn „Rósin“ sem Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður hefur hannað.

Ásta Bryndís Þorsteinsdóttir var hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún sat í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar í 10 ár þar af  8 ár sem formaður. Hún sat jafnframt í mörgum opinberum nefndum sem fjölluðu um málefni  fatlaðs fólks og heilbrigðismál. Hún var fulltrúi Íslands í norrænni samvinnu um málefni fatlaðra og sat á Alþingi frá árinu 1995 til dánardags 1998.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert