Kynferðisbrotum fjölgaði á síðasta ári

Tilkynnt var um 55 nauðganir með þvingun á síðasta ári …
Tilkynnt var um 55 nauðganir með þvingun á síðasta ári og 12 með misneytingu. Morgunblaðið/Júlíus

Kynferðisbrotum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á árinu 2007 samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Kynferðisbrotum gegn börnum fjölgaði einna mest en 66 tilkynningar bárust um slík brot. Árið 2006 var hins vegar tilkynnt um 32 kynferðisbrot gegn börnum. Þetta kemur fram í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2007 var tilkynnt um 55 nauðganir með þvingun sem er ríflega þriðjungs aukning frá meðaltali síðustu þriggja áranna á undan. Tilkynnt var um tólf nauðganir þar sem um misneytingu var að ræða, og fækkaði þeim töluvert.

Brot tengd klámi eða barnaklámi voru 25 en aðeins tólf árið 2006 og átján árið 2005. Einnig voru skráð fleiri brot tengd vændi en á undanförnum árum. Sex slík mál komu upp árið 2007 en þau voru þrjú árið 2006.

Í skýrslu lögreglunnar segir að hafa beri í huga, að á árinu 2007 hafi lög um kynferðisbrot tekið breytingum, m.a. þannig að samræðisaldurinn var hækkaður í 15 ár. „Fjölgun kynferðisbrota er án efa hægt að skýra að nokkru leyti með þessu og e.t.v. aukinni umræðu og breytingu á vitund í samfélaginu um þessi brot,“ segir í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert