Fyrst og fremst hissa

„Ég er fyrst og fremst hissa á þessari ákvörðun. Við höfum unnið af miklum heilindum í þættinum, flett ofan af mörgum hlutum og vakið upp gríðarlega sterka þjóðfélagsumræðu,“ segir Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóri Kompáss. Stjórnendum þáttarins, þeim Jóhannesi, Kristni Hrafnssyni og Inga R. Ingasyni, var í morgun sagt upp störfum og þátturinn lagður niður. Jóhannes segir þríeykið ætla að halda áfram. 

Hagræðing er ástæðan sem gefin var fyrir uppsögnum ritstjórnar Kompáss og niðurlagningu þáttarins. Jóhannes segir að hann muni ásamt félögum sínum taka næstu daga í skoða málin en eftir að ákvörðunin hafi spurst út hafi síminn vart stoppað.

„Við stefnum vitaskuld að því að halda áfram okkar vinnu. Okkar hugur liggur hjá heimildamönnum okkar og viðmælendum. Það leita fjölmargir til okkar með hugmyndir og við finnum að okkur er treyst. Við vorum og erum að vinna í mörgum málum en þau er mislangt á veg komin. Við erum teymi og vinnum vel saman og ég held að geti fullyrt að við höldum áfram okkar starfi, hvar sem það verður,“ segir Jóhannes og bætir við að teymið hefur þegar komið sér upp nýju netfangi, kompas@internet.is

Jóhannes var ásamt starfsmönnum Stöðvar 2 á fundi eftir hádegið með Óskari Hrafni Þorvaldssyni, fréttastjóra og Ara Edwald, forstjóra 365. Jóhannes segir sorg hafa einkennt fundinn frekar en nokkuð annað.

Jóhannes segir að aldrei hafi eigendur eða yfirmenn hafi reynt að hafa áhrif á efnistök eða umfjöllunarefni, þó um viðkvæm mál hafi verið að ræða og þrýstingurinn trúlega mikill utanfrá.

„Kompás teymið hefur allt frá upphafi talað opinskátt um að ef slík afskipti yrðu reynd þá væri sjálfhætt, ritstjórn Kompáss gengi út,“ segir Jóhannes.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert