VG leggur línurnar

Steingrímur J. Sigfússon kemur á fund forseta Íslands á Bessastöðum …
Steingrímur J. Sigfússon kemur á fund forseta Íslands á Bessastöðum í kvöld. mbl.is/Ómar

Flokksstjórn Vinstri grænna fundaði í kvöld með þingmönnum flokksins. Að sögn Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, var farið yfir stöðuna á fundinum og línur lagðar fyrir væntanlegar stjórnarmyndunarviðræður á morgun.

„Við vorum bara að fínstilla okkar undirbúning og það er góð samstaða í þingflokki og stjórn um okkar framlag,“ segir Steingrímur.

Steingrímur segir áherslur VG alveg klárar og að flokkurinn sé með myndarlegan pakka tilbúinn. „Við erum raunsæ á að þetta verður stjórn sem velur sér fá en mikilvæg verkefni til að vinna. Brýnustu verkefnin sem ráðast verður í fyrir kosningar,“ segir Steingrímur.

Inntur eftir því hvort ekki stefndi allt í minnihlutastjórn vinstri flokka með stuðningi Framsóknar sagði Steingrímur: „Nú er það forsetans að ákveða næstu skref og í hvaða farveg hann setur málin. Menn verða bara að lesa í það hvernig þetta hefur verið að þróast í dag og í kvöld. Þessir tveir kostir hafa verið til umræðu, þjóðstjórnarmynstur eða svona stjórn til vinstri. Og báðir kostirnir svo sem áfram uppi. En forsetinn metur það hvað honum sýnist vænlegast í þessu, hvernig hann vill setja út umboðið."

Steingrímur sagði fyrr í kvöld að heldur hefði fjarað undir möguleikum á þjóðstjórn.

„Þá var ég kannski að vísa til þess hvernig aðrir hafa talað," segir hann þegar þetta er borið undir hann." Maður hefur skynjað það að því hefur verið tekið fálega af sumum og þessi hörðu stjórnarslit í dag og harðar ásakanir milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar benda ekki beinlínis til þess að það sé líklegt að það gangi saman aftur með þeim flokkum og fleirum. En við stöndum við það sem við höfum sagt, við værum tilbúin til að skoða báða möguleikana, en við tökum líka mið af því hvernig málin eru að þróast."

En telur Steingrímur að viðræður muni ganga hratt fyrir sig þegar þær hefjast?

„Já, það er mikill áhugi á því hjá öllum að tapa sem minnstum tíma því hann er mjög dýrmætur núna."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert