Handteknar fyrir innbrot í hesthús

Lögreglan hefur upplýst innbrot í fjölda hesthúsa.
Lögreglan hefur upplýst innbrot í fjölda hesthúsa.

Lögreglan hefur haldlagt yfir þrjátíu hnakka sem stolið var í fjölda innbrota í hesthús á höfuðborgarsvæðinu fyrr í mánuðinum.

Í gær voru tvær konur handteknar í þágu rannsóknarinnar og hafa þær báðar játað sök. Tveir til viðbótar tengjast þessum innbrotum sem eru að mestu upplýst.

Lögregla segir að þjófunum hafi tekist að selja eitthvað af hnökkum en unnið er að því að endurheimta þá.

Hnakkarnir, sem voru haldlagðir, voru faldir á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu en þeir fundust við húsleitir sem og nokkrir aðrir munir sem einnig var stolið í þessum innbrotum. Það eru lögreglumenn á svæðisstöðinni í Hafnarfirði sem fara með rannsókn málsins.

Lögreglan hvetur fólk til að vera á varðbergi og hafa samband ef grunsemdir vakna, t.d. þegar þýfi er annars vegar. Þá minnir lögregla á ábyrgð þess, þegar svo ber undir, sem kaupir þýfi.

Í 264. gr. almennra hegningarlaga segir m.a.: Hver sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Sömu refsingu skal sá sæta sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að 4 árum. Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert