Bæjarstjóralaun fella meirihlutann

Jóna Fanney Friðriksdóttir
Jóna Fanney Friðriksdóttir

Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarfulltrúi á Blönduósi, segist hafa fengið bréf frá samflokksmönnum sínum í bæjarstjórninni í morgun þar sem henni hafi verið  tilkynnt að samstarfi þeirra við hana væri lokið. Þar með er meirihluti E-lista í bæjarstjórn Blönduóss fallinn.

„Ég bara spyr, hvaða vald hafa þeir til að senda mér slíkt bréf?” sagði Jóna Fanney er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag. „Ef þeir hafa eitthvað út á mig og mín störf að setja af hverju er þá ekki kallað til fundar E-listans og málið rætt þar?"

Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar, sagði í samtali við blaðamann mbl.is í morgun að hann liti svo á að Jóna Fanney hafi yfirgefið samstarfsmenn sína í bæjarstjórninni.  „Hún hefur verið með ýmsar athugasemdir og að okkar mati farið sérkennilegar leiðir," sagði hann.

Jóna Fanney segir málið snúast um athugasemdir hennar við það að Arnar Þór Ævarsson, sem tók við embætti bæjarstjóra af henni árið 2007, hafi alla tíð haft 12% hærri laun en hún hafi haft þrátt fyrir minni reynslu og starfsaldur.  

Þá hafi ráðningarsamningur hans aldrei verið lagður fyrir bæjarstjórn og sé því í raun ólöglegur. Fulltrúi minnihlutans hafi áður gert athugasemd við það síðastliðið sumar en það hafi ekki verið virt viðlits.

„Forsaga málsins er sú að þann 1. október 2007 sagði ég starfi mínu sem bæjarstjóri lausu til að vinna að öðrum málum,” sagði Jóna Fanney. „Þann 9. október sama ár var ég beðin um að gera ráðningarsamning fyrir eftirmann minn Arnar Þór Ævarsson.  Ég gerði það og sendi hann að mestu útfylltan til hans. Þar kom m.a. fram að hann skyldi hafa sömu laun og ég hafði haft. Nú í haust komst ég síðan að því fyrir tilviljun að hann hafði alla tíð fengið 12% hærri laun en kveðið var á um í þeim samningi.

Þegar ég komast að þessu kallaði ég til meirihlutafundar þar sem ég fór fram á skýringar á þessu. Ég bað m.a. um upplýsingar um það hver hefði samþykkt þetta og á hvað forsendum. Sá fundur var haldinn 13. janúar í ár klukkan þrjú og ég hef enn engin svör fengið.

Ég er mjög ósátt við þetta og lít á þetta sem trúnaðarbrest á milli mín og forseta bæjarstjórnar. Þá hef ég borið málið undir lögfræðinga sem segja að um skýrt brot á jafnréttislögum sé að ræða.  Mér finnst einnig mjög undarlegt að menn skuli halda að þeir geti bara hent mér út fyrir að gera athugasemdir og leita svara.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert