Lögreglan á Akureyri lagði hald á mikið magn e-taflna og kókaíns

Lögreglan á Akureyri handtók tvo menn á þrítugsaldri sl. mánudag grunaða um fíkniefnamisferli og hafði annar þeirra í fórum sínum 5 grömm af kókaíni. Hinn maðurinn var grunaður um að hafa stundað fíkniefnasölu á Akureyri og við húsleit hjá honum fundust 500 e-töflur og um 55 grömm af kókaíni til viðbótar.

Fram kemur á vef lögreglunnar að hún hafi einnig lagt hald á peninga sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnin og að hafa ætlað þau til sölu. Mönnunum var sleppt að loknum yfirheyrslum og telst málið upplýst.

Auk þessa máls hafa komið fimm fíkniefnamál til kasta lögreglunnar á Akureyri í þessum mánuði þar sem lagt hefur verið hald á um 120 grömm að kannabisefnum, nokkrar e-töflur og peninga sem taldir eru vera ágóði af fíkniefnasölu. Auk þessu tengdu hafa átta ökumenn verið stöðvaðir grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna það sem af er janúarmánuði, segir á vef lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert