Rúmlega 40 milljónum úthlutað úr Tónlistarsjóði

Kammersveit Reykjavíkur í Hallgrímskirkju.
Kammersveit Reykjavíkur í Hallgrímskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Menntamálaráðuneytið hefur að tillögu tónlistarráðs úthlutað rúmlega 40 milljóna króna styrkjum úr tónlistarsjóði fyrir fyrri helming þessa árs.

Tónlistarsjóði bárust 128 umsóknir frá 118 aðilum. Heildarfjárhæð umsókna nam rúmlega 114 milljónum króna. Veittir voru styrkir til 79 verkefna að heildarupphæð rúmlega 21 milljóna króna. Að auki verða greiddir út styrkir samkvæmt 9 samningum að upphæð 19,5 milljónir. Samningar þessir voru gerðir í ársbyrjun 2008 og gilda til þriggja ára.

Heildarúthlutun tónlistarsjóðs á fyrri hluta árs 2009 nemur þar af leiðandi rúmlega 40 milljónum króna. Á fjárlögum 2009 eru 54 milljónir til tónlistarsjóðs. Rúmar 13 milljónir eru enn í tónlistarsjóði til ráðstöfunar á þessu ári og verður aftur auglýst eftir umsóknum síðar á árinu.

Hæstu styrkina hljóta Kammersveit Reykjavíkur vegna tónleikahalds á árinu og Útón, Útflutningsmiðstöð tónlistar, til kynningar á íslenskri tónlist erlendis. Hvor um sig hlýtur fimm milljóna styrk.

Þá fær Caput-hópurinn 4,5 milljóna styrk til tónleikahalds.

Stórsveit Reykjavíkur fær þriggja milljóna króna styrk vegna tónleikahalds. Sömu upphæð fær Tónskáldafélag Íslands vegna Myrkra músíkdaga.

Félag íslenskra tónlistarmanna fær 1,5 milljónir vegna tónleikahalds á landsbyggðinni og Kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju fær eina milljón vegna tónleikahalds.

Íslensku tónlistarverðlaunin fá 800 þúsund króna styrk og sex styrkir að upphæð 500 þúsund krónur hver, eru veittir vegna tónlistarhátíða eða tónleikaferða.

Úthlutun úr tónlistarsjóði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert