Leitað í Hvammsfirði í nótt

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni. mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Landhelgisgæslan, lögreglan og björgunarsveitir úr Stykkishólmi og Búðardal voru við leit í Hvammsfirði í nótt eftir að tilkynning barst rétt eftir 23 í gærkvöldi frá manni í Hvammsnesi, sem er sunnan við Búðardal, um að hann hefði séð 2 neyðarblys á lofti vestur út Hvammsfjörð. Grunur lék á að bátur væri í vanda. Ekkert fannst í kjölfar leitar sem stóð í nokkrar klukkustundir.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og þrír bátar - björgunarsveitarbátur og tvær trillur frá Stykkishólmi - leituðu í Hvammsfirði til að verða fjögur í nótt. Skv. upplýsingum frá Gæslunni voru engir bátar þarna á ferð. Menn tóku hins vegar enga áhættu og leituðu af sér allan grun, enda eigi menn það til að fara til sjós á kænum og gleyma að tilkynna það.

Gæslan segir að því er menn best vita þá er einskis saknað. Ekki sé því vitað hvað hafi verið þarna í gangi. Mögulegt að menn í landi hafi skotið upp blysunum, en það hefur þó ekki verið staðfest.

Björgunarsveitir í Búðardal og Stykkishólmi eru nú með málið á sínum snærum. Komi eitthvað í ljós verði farið af stað aftur í birtingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert