Fundu gríðarstóra loðnutorfu

mbl.is

Áhöfnin á Lundey NS sigldi snemma í morgun fram á gríðarstóra loðnutorfu suður af Ingólfshöfða. Torfan var 14 mílna löng, um 600 til 1000 metra breið og þykkt hennar var um 10 til 30 faðmar. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson RE var aðeins vestar og náði sömuleiðis að mæla loðnutorfuna.

„Við vorum að koma frá Vopnafirði þar sem við lönduðum gulldepluafla í gær. Við sigldum um þetta svæði sl. föstudag og urðum þá ekki varir við nema smátorfur á víð og dreif. En svona gerist þetta, stór loðnutorfa gengur upp á grunnið og síðan sigtast inn nýjar göngur á öll grunn og ef menn halda ekki vöku sinni þá gæti loðnuvertíðin hæglega farið fram hjá þeim. Það munaði ekki nema hársbreidd að það gerðist í fyrra. Þá voru menn að deila um það við fiskifræðingana hve mikið væri af loðnu í hverjum mældum rúmmetra og niðurstaðan varð sú að ákveðið var að taka tilraunaköst til þess að ganga úr skugga um það. Þá fannst loðnugangan í Reynisdýpinu,“ segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS í samtali við vefsíðu HB Granda.

Lárus segist hissa á að ekki skuli hafa verið gefinn út loðnukvóti um leið og vart varð við þessa gríðarstóru loðnutorfu suður af Ingólfshöfðanum.

„Ég hélt að flotinn yrði ræstur út um leið. Í venjulegu árferði þá þættu þetta góðar horfur. Torfan var 25 til 30 faðma þykk þar sem hún var þykkust en víðast var hún um 12 til 15 faðmar á þykkt. Það væri vandalaust að ná 400 til 500 tonna köstum í nót alls staðar á þessum 14 mílum. Og það er loðna víðar fyrir austan. Vandinn er sá að það koma ekki 500 til 600 þúsund tonn af loðnu í einni gusu til að láta mæla sig. Það kemur góð torfa eins og þessi við Ingólfshöfðann og síðan sigtast inn í gönguna á öllum grunnum vestur með landinu. Eftir því sem vestar dregur er meira af loðnu í hverjum rúmmetra sem mælist. Þetta vita menn og það þarf að taka tillit til þess. Ef menn gera það ekki þá gæti loðnan verið komin vestur fyrir Eyjar áður fullnægjandi mæling næst og þá hafa menn ekki langan tíma til stefnu,“ sagði Lárus Grímsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert