Hugnast ekki framhald framkvæmda við Tónlistarhúss

Framkvæmdir við Tónlistarhúsið liggja niðri
Framkvæmdir við Tónlistarhúsið liggja niðri mbl.is/Rax

Á fundi borgarráðs í morgun var rætt öðru sinni um fyrirætlanir varðandi framhald framkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhúss við gömlu höfnina og um forgangsröðun og fjármögnun framkvæmda í miðborginni. Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, lýsti yfir andstöðu sinni við verkefnið, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá honum.

„Af því tilefni lýsti ég andstöðu minni við þá forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins og stuðningsflokka hans í borgarstjórn að halda áfram við uppbyggingu þeirrar ofurmiðborgar sem fyrirhugað var að reisa á hafnar- og slippasvæðinu, í stað þess að halda áfram með mun hagkvæmari menningarlegri og ferðaiðnaðarvænni uppbyggingu gömlu miðborgarinnar í Kvosinni og við Laugaveg.

Brýna nauðsyn ber til að endurskoða yfirgengilegar og rándýrar áætlanir um miðborgina frá þeim tíma sem sjálfhverfuauðvaldið réði málum í landi og borg fram að hruni þess í októbermánuði sl. Tryggja þarf að ný miðborg á hafnar- og slippasvæðinu taki meira mið af fínleika gömlu miðborgarinnar og að horfið verði frá tröllauknum fyrirætlunum um rándýr neðanjarðargöng og óhagkvæmar ofurbyggingar í miðborginni í takt við skýjaborgir sjálfstæðismanna um allt að 30.000 manna byggð á landfyllingum og eyjum utan strandlengjunnar í Reykjavík.

Taka verður tillit til þeirrar staðreyndar að við búum í fámennu samfélagi með takmarkaðan aðgang að fjármagni og að stórveldistími bankagjafaþega og útrásarvíkinga Sjálfstæðisflokks og Framsóknaflokks er liðinn undir lok,"  segir í yfirlýsingu frá borgarfulltrúa F-listans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert