Tókust á um arðsemi álveranna

Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir óvíst að nokkur ný álver verði byggð á vesturlöndum næstu 10-15 árin. Hann segir jafnframt að nettó arðsemi af veltu álfyrirtækja hér á landi sé lágt og tekur þannig undir orð ráðuneytisstjóra síns, Indriða H. Þorlákssonar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím að því í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í morgun, hvort hann væri sammála þeirri skoðun ráðuneytisstjórans að efnahagslegur ávinningur af starfsemi álvera á landinu sé lítill. Hún sagðist dauðhrædd um að ef VG og Samfylking haldi ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram næstu árin muni flokkarnir koma í veg fyrir uppbyggingu stóriðju hér á landi.

Hún kvað Indriða hafa í greinarskrifum sínum að undanförnu tekið út einn þátt álframleiðslunnar og einblínt á hann. Nefndi hún sem dæmi að Alcan, sem nú heitir RioTinto Alcan og rekur álverið í Straumsvík, hafi á árinu 2007 borgað 1,4 milljarða króna í tekjuskatt, sem hafi verið 3% af öllum tekjuskatti til ríkisins það ár. Þá fái hagkerfið um 80 milljarða í hreinar gjaldeyristekjur af álframleiðslu á ári hverju.

Steingrímur sagðist eingöngu svara fyrir ráðuneytið en að ráðuneytisstjórinn stæði fyrir sínum orðum sjálfur. Hann kvaðst hins vegar viljugur til að láta framkvæma nákvæma arðsemisgreiningu á áliðnaðinum hér á landi og tók Þorgerður Katrín undir það með honum. Steingrímur hafnaði því einnig að Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, hefði verið „hreinsaður“ út úr ráðuneytinu. Hann hafi hins vegar tekið ósk Baldurs um tímabundið leyfi frá störfum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert