Vill að Óskar Bergsson segi af sér

Ólafur F. Magnússon gagnrýnir Framsóknarflokkinn harðlega.
Ólafur F. Magnússon gagnrýnir Framsóknarflokkinn harðlega. mbl.is/Kristinn

Óeðlilega var staðið að málum þegar Reykjavíkurborg var látin standa straum af kostnaði vegna móttöku framsóknarmanna 14. nóvember sl., að mati Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa. Hann telur málið það alvarlegt að Óskari Bergssyni, formanni borgarráðs, beri að segja af sér embætti.

„Ég tel að þessar upplýsingar séu það alvarlegar að þær verði að vera ræddar hér á þessum fundi og óska eftir því að þær verði teknar á dagskrá á þessum fundi. Það fjallar um misnotkun á móttökustarfsemi og ýmsu öðru sem varðar yfirstjórn borgarinnar í tíð núverandi meirihluta, síðast þegar dæmi sem ég ekki vissi fyrr en í dag var iðkað á kostnað borgarbúa, það er að segja það var haldinn móttaka hér 14. nóvember 2008 á kostnað borgarbúa fyrir sveitarstjórnarmenn framsóknarflokksins sem sátu sér ráðstefnu sveitarstjórnarmanna um fjármál. 

Þetta er eitthvað sem aldrei hefði komið til greina í minni tíð sem borgarstjóri. Hér er verið að misnota fé borgarbúa og ég óska eftir því að fá umræðu um þetta hér því þetta eru það alvarlegir meinbugir á því hvernig yfirstjórn borgarinnar er iðkuð og hvernig framsóknarvæðingin af hálfu núverandi borgarmeirihluta er tíðkuð.

Það kallar á það að það verði stokkað upp og að viðkomandi borgarfulltrúi og formaður borgarráðs [Óskar Bergsson] segir af sér. “

Gat ekki orðið við beiðni Ólafs

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, kvaðst ekki geta orðið við beiðni Ólafs um að taka málið á dagskrá, með vísun til fundargerðar forsætisnefndar frá 13. nefndar, þar sem sérstaklega sé fjallað um móttökur og þess háttar.

Taldi Vilhjálmur rétt að umræða tengd málinu færi fram undir sama lið og ofangreind fundargerð varðaði.

Ólafur svaraði forseta í athugasemd:

Siðferðislega vanhæfur meirihluti

„Hér er ekki um neitt smá formsatriði að ræða sem varðar fundargerðir forsætisnefndar eða aðrar fundargerðir borgarinnar. Hér er um grófa misbeitingu valds að ræða, misnotkun fjármála borgarbúa og angi af þeim ljótu hrossakaupum sem hófust við myndun þessa meirihluta og þetta verður að ræða hér og nú fyrir opnum tjöldum. Ég er búinn að grafa upp þessar upplýsingar sem hefur verið reynt að leyna og ég vil fá þær upp á borðið. Þessi meirihluti er siðferðislega vanhæfur til að stjórna borginni.“

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, vísar ásökunum á bug.

Ber af sér sakir

„Ég kem hérna upp, fyrst og fremst til þess að bera af mér sakir vegna þeirrar uppákomu sem að hér er komin sem hefði svo hæglega verið hægt að taka upp í fundargerðum forsætisnefndar síðar á fundinum,“ sagði Óskar og hélt áfram.

„Þar sem fjölmiðlar hafa verið kallaðir á staðinn vegna málsins þá held ég að það sé ekki hjá því komist annað en að svara í raun og veru því sem borgarfulltrúi Ólafur F. Magnússon er að halda hér fram, að hér sé verið að misfara með almannafé í yfirstjórn Reykjavíkurborgar og hygla einstökum aðilum [...]

Ég verð að minna á og rifja upp fyrir borgarfulltrúanum að í borgarstjórn Reykjavíkur hafa æðstu stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar rétt til þess að halda móttökur á sínum vegum, undir það falla til að mynda borgarstjóri, forseti borgarstjórnar og borgarráðs.

Út af þessum eina tiltekna fundi sem borgarfulltrúi nefnir að þá var hér um fund að ræða. Það þarf ekki að rifja það upp fyrir nokkrum manni hér að það sem gerðist hér í borgarstjórn Reykjavíkur í haust eftir ákveðna óöld sem hér ríkti, meðal annars meðan borgarstjóri Ólafur F. Magnússon ríkti hér, að þá komst friður á í borgarstjórn Reykjavíkur, friður sem var komið á með þverpólitískri samstöðu allra þeirra sem hér sitja, nema hans. Þetta vakti athygli víða og við tókum höndum saman og unnum aðgerðaráætlun vegna breytinga í efnahags- og atvinnuumhverfi á þeim tíma og höfðum ekki minnsta grun um það sem síðan á eftir fylgdi þegar bankarnir [...]“

Andsvar Óskars var þá truflað. Hann hélt svo áfram.

„Ég er að reyna að svara því að hér...“

Forseti borgarstjórnar sló þá í bjöllu og ítrekaði tímamörk. Aftur hélt Óskar áfram:

Þótti rétt að efna til fundar

„Tilefni fundarins umfram það að hér var fjármálaráðstefna sveitarfélaga á þessum tíma og ég gegni formennsku í sveitarstjórnarráði Framsóknarflokksins að þá þótti mér rétt við þessar aðstæður að funda með félögum mínum í Framsóknarflokknum, meðal annars til þess að greina frá aðgerðaáætluninni sem mörg önnur sveitarfélög hafa tekið til eftirbreytni og fylgja eftir.

Þannig að hér var um fund að ræða, fund sem var haldinn í borgarstjórn Reykjavíkur í mínu boði vegna þess að borgarfulltrúi Ólafur F. Magnússon talar hér oft og iðulega um mikilvægi virðingar borgarstjórnar Reykjavíkur finnst mér með hreinum ólíkindum að hér sé tekið upp mál eins og þetta þetta, blásið út og kallaðir til allir fjölmiðlar landsins til þess að fara yfir það hér sé um spillingu að ræða og líka vegna þess að borgarfulltrúinn hann hvatti mig til þess að ég ætti að segja af mér vegna málsins.

Hér er svo yfir mann gengið að það í raun og veru [...] og úr því að ég er í raun staðinn upp til að bera hönd fyrir höfuð mér í þessari umræðu [...] er mikilvægt að hér komi fram að oftar en ekki, og yfirleitt á borgarstjórnarfundum nýverið, þá þurfum við að þola eilífar uppákomur sama borgarfulltrúa aftur og aftur.“ 

Óskar Bergsson vísaði ásökunum á bug.
Óskar Bergsson vísaði ásökunum á bug. mbl.is/Billi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert