Fréttaskýring: Greiðfært að semja ný lög um hvalveiðar

mbl.is/Ómar

Þetta er mjög fornfáleg löggjöf frá árinu 1949 og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem við gerum í dag til löggjafar af þessum toga. Hvað sem okkur annars finnst um hvalveiðar. Ef menn vilja á annað borð stunda hvalveiðar á Íslandi þá þarf að vera einhvers konar heilsteypt löggjöf um þau mál,“ segir Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, sem kannaði lagalegan grundvöll hvalveiðilöggjafarinnar að beiðni Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Tilefnið var að Einar K. Guðfinnsson, forveri Steingríms í embætti, heimilaði veiðar á hrefnu og langreyði á síðustu dögum sínum í embætti og er Ástráður ekki í nokkrum vafa um að lokinni skoðun sinni á lögunum að skilgreina þurfi betur ýmis ákvæði um veiðarnar.

„Slík löggjöf þarf að uppfylla þau skilyrði sem við setjum um nútímalega löggjöf sem fjallar um nýtingu á auðlindum sjávar, hverjir eigi rétt til nýtingar, samanber það sem við höfum í fiskveiðistjórnunarlögunum, hvernig eigi að úthluta veiðiheimildunum og hvað eigi að miða við í þessari úthlutun. Þarna er það í besta falli mjög óljóst hvernig staðið skuli að þessu. Síðan er öll stjórnsýsla hvalveiða mjög fornfáleg. Hlutverk Fiskistofu er ekki skilgreint hvað þetta varðar og ekkert sagt um til hversu langs tíma leyfin eigi að gilda.“

Sama gildir um hollustukröfur

Ástráður segir það sama gilda um kröfur til hvalkjötsvinnslu sem séu mjög illa skilgreindar í lögunum.

Núgildandi reglugerð um vinnslu og umbúnað á hvalkjöti sé frá árinu 1949 og uppfylli ekki nútímakröfur með tilliti til þess að stuðla að ráðstöfunum til að tryggja gæði, hollustu og öryggi matvæla.

Að mati Ástráðs þarf að svara nokkrum spurningum, svo sem hvort taka eigi veiðigjald, hversu hátt það eigi að vera eða við hvað skuli miðað í því efni. Allt séu þetta atriði sem skorti á í lögunum. „Síðan eru öll nánari stjórntæki Fiskistofu eða ráðherrans, eða þess aðila sem á að hafa þá stjórnun með höndum, sem og sjálft skipulag og fyrirkomulag veiðanna, illa skilgreind og óljós.“

Hann segir sitt mat það að eðlilegast væri að útgáfa veiðileyfa til hvalveiða væri í höndum Fiskistofu.

„Af hverju ættum við að taka hvalveiðarnar sérstaklega út úr í þessu samhengi,“ spyr Ástráður.

Brýnt sé að sett verði ný lög um veiðarnar ef vilji löggjafans standi til þess að festa hvalveiðar varanlega í sessi sem atvinnugrein á Íslandi.

Gagnrýnir vinnubrögðin

Ástráður gagnrýnir þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við reglugerðarbreytingarnar 27. janúar, þegar tímabundnar hvalveiðar voru leyfðar. Engin minnisblöð hafi verið unnin um málið né lögð fram skrifleg undirbúningsgögn af ráðuneytinu.

„Þetta hlýtur að teljast afar óvenjulegt og ber ekki vott um vandaða stjórnsýslu,“ skrifar Ástráður, sem telur útgáfu veiðiheimilda án auglýsingar, þrátt fyrir athugasemdir umboðsmanns Alþingis, ekki standast „grundvallarsjónarmið um jafnræði og hlutlæga stjórnsýslu“.

Inntur eftir því hversu mikla vinnu það muni útheimta að breyta lögunum segir Ástráður að það þurfi að skrifa frumvarp að nýjum lögum, sem þurfi ekki að vera tímafrekt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert