Tilviljun úr hvaða atvinnugreinum fjárfestarnir koma

Óskar Magnússon.
Óskar Magnússon. mbl.is/Golli

„Við hlökkum fyrst og fremst til að vera þátttakendur í því að gefa út þennan öfluga og vandaða miðil, sem nýtur óskoraðs trausts með þjóðinni, og að vinna með því frábæra fólki sem þarna starfar“ sagði Óskar Magnússon við Fréttavef Morgunblaðsins, eftir að Þórsmörk ehf., félag sem hann fer fyrir, samdi við Íslandsbanka um kaup á nýju hlutafé í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

„Við erum mjög ánægðir með að hafa haft árangur í þessum viðræðum. Framundan eru hluthafafundir og einhverjir samningar við kröfuhafa þannig að það verður ekki fyrr en eftir einhverjar vikur sem við getum farið að láta til okkar taka - ef allt gengur eftir,“ segir Óskar.

Hluthafar í Þórsmörk ehf. eru, auk Óskars, Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson. Til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum.  

Þorsteinn Már er forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja á Akureyri og Pétur framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík. Guðbjörg er ekkja Sigurðar Einarssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Spurður út í þess tengingu við sjávarútveginn sagði Óskar: „Það er tilviljun ein sem ræður því úr hvaða atvinnugreinum þeir koma.“

Óskar segir ekki hafa verið auðvelt að finna fjárfesta sem tilbúnir voru að setja fjármagn í verkefnið eins og staðan er í þjóðfélaginu og staða Árvakurs er. „Þetta eru þeir sem voru tilbúnir í það á þessu stigi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert