Ný gulldeplumið fundin

Gulldepla eða laxsíld.
Gulldepla eða laxsíld. mbl.is/sigurgeir

Ný gulldeplumið eru fundin djúpt suður af Vestmannaeyjum og eru sjö skip nú þar á veiðum. Öll fengu þau einhvern afla í gær en bræla og leiðindaveður er á svæðinu og því ekki hægt að kasta í morgun, að því er kemur fram á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Haft er eftir Guðmundi Guðmundssyni, skipstjóra á Hugin VE, að menn vonuðust til að úr rættist með veður þannig að hægt væri að hefja veiðarnar á ný. Skipin eru  um 130 mílur í beinni línu suður af Vestmannaeyjum. Áætlaði hann að afli skipsins væri um 160 tonn.

Guðmundur segir, að menn séu alltaf að ná betri tökum á geymslu aflans um borð en við upphaf veiðanna voru nokkrur erfiðleikar með það sökum smæðar fiskjarins. Hann taldi að með þeirri aðferð sem nú væri notuð mætti reikna með fimm sólarhringa geymsluþoli.

Auk Hugins VE eru þarna á svipuðum slóðum Kap VE, Birtingur NK, Jóna Eðvalds SF, Guðmundur VE, Hoffell SU og Ásgrímur Halldórsson SF.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert