Fallið frá sameiningu heilbrigðisstofnana

Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði.
Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. mynd/bb.is

Fallið hefur verið frá sameiningu Helbrigðisstofnunar Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra fundaði með sveitarstjórnarmönnum á norðanverðum Vestfjörðum og framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í morgun, og segir hann ákvörðunina tekna í samráði við heimamenn.

„Við fórum yfir niðurskurðinn og skipulagsbreytingarnar í heilbrigðiskerfinu þar sem ákvarðanir liggja fyrir um að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði sameinist í eina stofnun. Eftir viðræður við forsvarsmenn á Patreksfirði og á Ísafirði, hafa menn efasemdir um ávinning sameiningarinnar. Þess vegna höfum við ákveðið að falla frá áformum þar að lútandi,“ segir Ögmundur við vefinn bb.is.

Ögmundur segir einbeittan vilja liggja gegn sameiningu stofnananna meðal Vestfirðinga og er stefna heilbrigðisráðuneytisins að gera ekkert nema í samráði og eftir vilja heimamanna. „Enda er það svo að ávinningur verður ekki nema hann byggist á raunsæi og vilja manna. Það á ekki að keyra skipulagsbreytingar fram með reglustikuaðferðum sunnan heiða. Þeir sem kunna best að meta stöðu stofanananna eru þeir sem standa sjálfir í verkunum. Ég er mjög sáttur við niðurstöðuna og tel hana hyggilega eins og sakir standa,“ segir Ögmundur.

Hann segir ákvörðunina vera líkt og önnur mannanna verk í skipulagi samfélagsins. „Þar á allt að vera í stöðugu endurskipulagi og endurmótun og það á við eins og svo margt annað. En það var mjög áríðandi að eyða óvissunni sem hefur ríkt og ég finn fyrir almennri ánægju með að virkja almanna vilja og hlusta á það sem heimamenn vilja gera,“ segir Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert