Mátti krefja mann um endurgreiðslu á lífeyri

HúsnæðiTryggingastofnunar við Laugaveg.
HúsnæðiTryggingastofnunar við Laugaveg. mbl.is/Árni Torfason

Hæstiréttur hefur sýknað Tryggingastofnun af kröfu karlmanns, sem vildi að felld yrði úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um að krefja manninn um endurgreiðslu á lífeyri. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninum í vil.

Maðurinn hóf töku lífeyris hjá Tryggingastofnun árið 2002 en hann var þá 67 ára. Tryggingastofnun taldi, að maðurinn hefði fengið ofgreitt vegna áranna 2003 og 2004.  Hann fékk einnig greiddan lífeyri árin 2005 og 2006 en Tryggingastofnun taldi að maðurinn hefði ekki haft rétt til þess. Ofgreiðslurnar komu í ljós við endurreikning bóta.

Tryggingastofnun tilkynnti manninum bréflega að þess væri krafist að hann endurgreiddi lífeyri, samtals 662.725 krónur. Maðurinn höfðaði þá mál gegn stofnuninni og krafðist þess að ákvörðun um að krefja hann um endurgreiðslu yrði felld úr gildi.

Hæstiréttur taldi, að Tryggingastofnun hefði skýrt tölulegar forsendur endurkröfu sinnar með fullnægjandi hætti við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Þá hefði stofnunin gætt andmælaréttar mannsins með fullnægjandi hætti. Hafnaði rétturinn því kröfu mannsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert