Sex frumvörp afgreidd á ríkisstjórnarfundi

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna.

Ríkisstjórnin afgreiddi 6 frumvörp til laga á fundi sínum í dag. Meðal þeirra var frumvarp dóms og kirkjumálaráðherra um breytingar á lögum um um embætti sérstaks saksóknara sem m.a. er ætlað að efla og styrkja embættið og auka heimildir þess til að kalla eftir upplýsingum og gögnum.

Þá samþykkti ríkisstjórnin einnig frumvarp fjármálaráðherra um breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með það að markmiði að styrkja skattaframkvæmd og vinna gegn skattaundanskoti og frumvarp til laga um breyting á tollalögum, lögum um vörugjald og lögum um virðisaukaskatt með það að markmiði að bregðast tímabundið við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna efnahagsástandsins.

Þrjú frumvörp iðnaðarráðherra voru samþykkt: Frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík, sem mun heimila að gengið verði til samninga við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf vegna byggingar og reksturs álvers í Helguvík. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum sem frestar framkvæmd ákvæða raforkulaga um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta til 1. janúar 2010 og frumvarp til laga sem varðar niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Frumvörpin verða í framhaldi send þingflokkum stjórnarflokkanna til afgreiðslu og þingflokki framsóknarflokks til kynningar og í framhaldi lögð fyrir Alþingi.

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að leggja 29 mál fyrir Alþingi, þar af 26 lagafrumvörp sem gera ráð fyrir breytingum á 42 lögum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert