Niðurgreiðslurnar óbreyttar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

Ekki lítur út fyrir að breytingar verði á skerðingu niðurgreiðslna og beingreiðslna til bænda. Frumvarp er í vinnslu sem heimilar Bjargráðasjóði að styrkja fóðurkaup. Virðisaukaskattsmál eru í skoðun.
Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra landbúnaðar, sjávarútvegs og fjármála, sagði á Búnaðarþingi sem nú stendur yfir á Hótel Sögu að verið væri að vinna að ýmsum úrræðum fyrir landbúnaðinn, þar væru ýmis brýn verkefni.

Fjármögnunarvandræði bænda, þá sérstaklega vegna áburðarkaupa séu aðkallandi og undanfarið hafi staðið yfir viðræður vegna þeirra. Sú hugmynd hafi komið upp að nýta Bjargráðasjóð en staðið hafði til að leggja hann niður.  Frumvarp sé nú í smíðum þar sem sjóðnum er veitt heimild til að veita á þessu ári fjármagn vegna áburðarkaupa. Ætlunin sé að styrkja kaupin að einhverju marki en að hve miklu leyti liggi ekki fyrir. Fyrstu þurfi að semja við ýmsa aðila sem að málinu koma. Sagði Steingrímur að ákveðin niðurstaða myndi liggja fyrir á næstu dögum.


Steingrímur sagði að því miður gæti hann ekki gefið vonir um breytingar á skerðingu niðurgreiðslna til bænda sem ákveðnar voru í fjárlögum þessa árs. Nauðsynlegt sé að ná endum saman í fjármálum þjóðarinnar innan fárra ára og skerðingin sé liður í því. Þá líti ekki út fyrir hætt verði við skerðingu á beingreiðslum til bænda. Bændasamtökin hafi beðið um að þetta verði endurskoðað og lögð hefur verið inn umsögn. Það væri verið að skoða þá umsögn því auðvitað væri farsælast ef hægt væri að leysa þessi mál á farsælan hátt með samningum.


Ráðherrann sagði að verið væri að skoða virðisaukaskattsmálin . Búið væri að beina þeim tilmælum til skattstjóra að fella niður álag vegna skila á virðisauka, sem sé á morgun, mánudag. Þá hafi verið ákveðið að fallast á beiðni um aukauppgjörsdag. Ef þörf krefur mun svo verða skoðað hvort fjármálaráðuneytið auki heimildir og komi í  veg fyrir að bændur sem eigi rétt á endurgreiðslu virðisauka þurfi að leggja mikið út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert