Stóru málin bíða í þinginu

Samtals hafa 42 frumvörp til laga og 3 þingsályktunartillögur verið afgreidd úr ríkisstjórn frá því hún tók við völdum í byrjun febrúar. Þó hafa aðeins fimm lagafrumvörp verið afgreidd frá Alþingi, þar af voru tvö afgreidd nú fyrir stundu. Önnur frumvörp bíða afgreiðslu eða hafa ekki verið lögð fram á þinginu.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tók við völdum sunnudaginn 1. febrúar en fyrsti þingfundur eftir stjórnarskipti var miðvikudaginn 4. febrúar.

Haldnir hafa verið 18 þingfundir síðan þá, sá 19. stendur nú yfir á Alþingi. Þessir 18 þingfundir hafa staðið yfir í samtals 82 klukkustundir eða að meðaltali fjóra og hálfa klukkustund hver. Sá lengsti stóð í tæpar níu klukkustundir en sá stysti í rúma klukkustund.

Einn fundur sker sig þó úr, það er þingfundur sem hófst klukkan 15 mánudaginn 23. febrúar og lauk stundarfjórðungi fyrir klukkan 18. Þann dag var ekkert mál rætt í þingsölum, afgreiðslu viðskiptanefndar á umdeildu seðlabankafrumvarpi var beðið.

Þau mál sem alþingi hefur afgreitt sem lög frá Alþingi eru fyrrgreind lög um Seðlabanka Íslands, skipulag yfirstjórnar og peningastefnunefnd, heildarlög um uppbyggingu og rekstur fráveitna og svo lög um tekjustofna sveitarfélaga og gatnagerðargjald sem m.a fjalla um lögveðsrétt fasteignaskatts og endurgreiðslu gatnagerðargjalds.

Fyrir stundu voru svo samþykkt tvenn lög, annars vegar um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis og hins vegar um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um viðmiðunardag umsóknar um kosningarrétt.

Breytingar á lögum um aðför, gjaldþrotaskipti og nauðungarsölu eru óafgreiddar. Sömuleiðis lög um greiðsluaðlögun, útgreiðslu séreignarsparnaðar, niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, stjórnarskipunarlög, lög um stjórnlagaþing og afnám laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara bíða enn samþykktar Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert