Brugðust þjóðinni

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Ráðandi öfl í stjórnmálum, eftirlits- og stjórnsýslustofnanir, forystumenn í bönkum og viðskiptalífi og fjölmiðlar brugðust þjóðinni, því þeir sinntu ekki sínu aðhalds- og eftirlitshlutverki. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra við umræður um stjórnskipunarfrumvarpið á Alþingi, sem nú standa yfir

Steingrímur sagði að þjóðin væri grátt leikin. Frumvarpið væri hluti af lýðræðisumbótum og tilraun til að ná aftur sáttum í samfélaginu.

Forystumenn flokkanna og aðrir þingmenn tókust hart á um frumvarpið við umræðurnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega að ekkert samráð hefði verið haft við Sjálfstæðisflokkinn um frumvarpið. Sjálfstæðismenn væru reiðubúnir að vinna að samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni. Það hefði aldrei verið fullreynt. „Takið í okkar útréttu sáttahönd,“ sagði hún. Þorgerður Katrín spurði einnig af hverju ekki væri bætt inn nýju ákvæði um fullveldið í stjórnarskrána.  

Þorgerður Katrín tók undir ummæli flokksbróður hennar Bjarna Benediktssonar á þinginu í morgun um mikilvægi þess að samkomulag næðist milli flokka um næstu skref um mögulega aðildarumsókn að ESB. Stjórnskipunarfrumvarpið væri hins vegar þannig vaxið að það kæmi í veg fyrir að sótt yrði um aðild að ESB með samkomulagi allra flokka.

Í ræðu sinni gagnrýndi hún einnig kostnað við fyrirhugað stjórnlagaþing. Það þýddi t.d. að launakostnaður eins fulltrúa sem kjörinn yrði á það yrði jafn hár kostnaði við einn lækni á Landspítalanum. Allir fulltrúarnir kostuðu því jafn mikið og ársstörf 41 læknis við Landspítalann. Auk þess kæmu svo 41 aðstoðarmaður þingmanna á stjórnlagaþingi o.fl. „Þetta lýðræðisframtak kostar sitt,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert