Hófsamar arðgreiðslur

HB Grandi á Akranesi.
HB Grandi á Akranesi.

„Arðgreiðsla HB Granda telst á alla mælikvarða afar hófsöm ef litið er til vaxtakjara á bankainnistæðum og ríkisskuldabréfum,“ segir í yfirlýsingu sem stjórnarformaður og forstjóri HB Granda sendur frá sér.

Í ljósi góðrar afkomu leggur stjórn HB til að greiddur verði 8% arður til hluthafa. Hagnaður af rekstri HB Granda árið 2008 nam 16 milljónum evra eða tæplega 2,3 milljörðum króna. 8% arður nemur því 184 milljónum króna.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segir það móðgun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl. Hann skorar á aðalfund HB Granda að greiða þær launahækkanir sem áttu að koma 1. mars strax og sýna þannig í verki að góð fyrirtæki eru ekki rekin með hagnaði nema með góðum starfsmönnum.

Í yfirlýsingu sem Árni Vilhjálmsson, stjórnarformaður HB Granda hf. og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda hf. sendu frá sér segir að nokkur undanfarin ár hafi árlegar arðgreiðslur HB Granda hf. numið 12% af nafnvirði hlutafjár. Á þessum tíma hafi gengi hlutabréfa í félaginu verið á bilinu 8 til 12,5. Það þýði að arður, sem hlutfall af markaðsvirði, hafi verið á bilinu 1-1,5%.

„Þetta telst á alla mælikvarða afar hófsöm arðgreiðsla, svo sem ljóst má vera ef litið er til vaxtakjara á bankainnistæðum og ríkisskuldabréfum.  Samt sem áður hefur stjórn félagsins ákveðið að leggja til við aðalfund að arðgreiðsluhlutfallið lækki í 8% vegna ársins 2008.  Þetta samsvarar 0,8% arði á útistandandi hlutafé, miðað við núverandi gengi 10.  Lækkunin ræðst einkum af búsifjum vegna loðnuvertíðarbrests og af óvissu vegna umtalsverðra lækkana á verði nokkurra helstu afurða félagins.  Að auki kemur til fjárþörf vegna fjárfestinga, einkum uppbyggingar á nýrri bræðslu félagsins, sem skapa mun mörg störf á byggingartíma á Vopnafirði,“ segir í yfirlýsingu stjórnenda HB Granda hf.

Þá segir ennfremur að félagið fagni því að hafa undanfarna mánuði getað haldið uppi fullri vinnu í fiskiðjuverum félagsins í Reykjavík og á Akranesi, enda sé efnahagslífinu mikilvægast að starfandi fyrirtækjum sé haldið í stöðugum rekstri.

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert