15.685 milljarða skuldir

Skuldir einstaklinga og fyrirtækja hafa aukist gríðarlega á síðustu árum. Þetta má lesa út úr skattskýrslum, en upplýsingarnar eru birtar í Tíund, blaði ríkisskattstjóra, sem var að koma út.

Skuldir fyrirtækjanna í landinu voru 15.685 milljarðar króna í árslok 2007, eða 15.685.000.000.000 krónur. Vafalaust er þetta hærri tala en áður hefur birst í íslensku blaði. Til samanburðar má nefna að skuldir fyrirtækja námu 346 milljörðum árið 1998.

Fram kemur í Tíund að skuldasöfnun fyrirtækjanna hafi hafist fyrir alvöru árið 2003, þegar aðgengi að lánsfé jókst. Á tveimur síðustu framtalsárum, þ.e. 2006 og 2007, jukust skuldir fyrirtækjanna um tæpa 9.000 milljarða. Af þeim 15.685 milljörðum, sem íslensk fyrirtæki skulduðu í árslok 2007, skulduðu níu bankar og sparisjóðir og eitt kaupleigufyrirtæki samtals 8.822 milljarða króna.

Opinberir aðilar, þ.e. ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra, þar með talinn Íbúðalánasjóður, eru ekki meðtaldir í þessum tölum.

Skuldir einstaklinga hafa hækkað um 129% á síðustu fimm árum og námu í árslok 2007 samtals 1.348 milljörðum króna. Páll Kolbeins hagfræðingur segir í grein í Tíund, að það veki athygli hversu margir einstaklingar skuldi mikið og hve ört hafi fjölgað í þeim hópi sem svo er ástatt um. Á síðustu árum hafi það færst í vöxt að einstaklingar, sem hafi notið lánstrausts, hafi fengið mikið fé að láni til þess að kaupa verðbréf. Árið 2003 töldu 120 einstaklingar fram meira en 50 milljónir króna í skuldir. Einn framteljandi skuldaði þá meira en 400 milljónir. Fimm árum síðar, árið 2008, skuldaði 1.841 framteljandi meira en 50 milljónir. Þar af skulduðu 44 meira en 400 milljónir og 18 framteljendur skulduðu meira en 1.000 milljónir króna hver. Skuldir þessara 18 einstaklinga námu samtals 31,7 milljörðum króna.

Einstaklingar og fyrirtæki eru nú að telja fram til skatts fyrir árið 2008. Upplýsingar um skuldastöðuna í árslok 2008 munu liggja fyrir í október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert