Ferma í ókláraðri kirkjunni

Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur og Guðni Már Harðarson prestur inni …
Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur og Guðni Már Harðarson prestur inni í hinu hálfkláraða kirkjuskipi Lindakirkju í Kópavogi. Mbl.is / hag

Þrjátíu og átta fermingarbörn ganga til altaris í Lindakirkju í Kópavogi á morgun, laugardag. Athöfnin verður sérstök fyrir þær sakir að hún er sú fyrsta í hinni nýju kirkju, sem ekki er fullkláruð.

Á meðal þess sem vantar eru bekkir fyrir kirkjugesti, en stólum hefur verið raðað upp til bráðabirgða. Altarið er þó komið og eins og séra Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur segir eru fjórir veggir á kirkjunni og hlýtt þar inni.

Altarið er tilbúið en í stað altaristöflu í hefðbundinni mynd verður myndum varpað upp á tjald fyrir ofan það. „Við eigum svo margar skemmtilegar myndir af kirkjustarfinu í vetur. Þegar athöfnin sjálf hefst verðum við með fallega mynd á skjávarpanum. Þessi mynd verður í raun altaristaflan,“ útskýrir presturinn.

„Við verðum hér vegna hvatningar frá bæði foreldrum og fermingarbörnum. Fólk vildi almennt vera hér inni og ein móðirin orðaði það þannig að hún vildi vera í sinni kirkju þótt hún þyrfti að vera þar á kuldagallanum.“ Guðmundur Karl segir ekki væsa um fólk inni í kirkjunni, auk þess sem þangað sé komið fínt orgel.

Nýtingin á kirkjunni verður mikil í vor þótt hún eigi að standa ókláruð um óákveðinn tíma. Fermingin á morgun er ekki sú eina, heldur munu alls 126 börn fermast þar á þessu ári. Þar fyrir utan á að setja upp óperuna Töfraflautuna eftir Mozart í apríl. „Hér verður því komið fyrsta óperuhús í Kópavogi, langt á undan öðrum sem fyrirheit eru um,“ segir Guðmundur Karl.

Stór hluti kirkjunnar er engu að síður fullbúinn, til að mynda fyrsti áfanginn sem inniheldur safnaðarheimilið. Safnaðarsalurinn var vígður í desember síðastliðinn, en hann rúmar ekki stærri athafnir á borð við fermingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert